Seðlabanki Sviss (SNB) tilkynnti í morgun að áætluð afkoma hans árið 2022 hafi verið um 132 milljarðar franka, eða sem nemur 20,4 þúsund milljarða króna tapi. Um er að ræða mesta tap í 116 ára sögu bankans. Bloomberg greinir frá.

Afkomuna má að stærstum hluta rekja þess að virði eigna bankans í erlendri mynt dróst saman um 131 milljarð franka.

Virði gjaldeyrisvaraforða SNB féll um tæplega 17% í fyrra en í desember síðastliðnum nam hann 784 milljörðum franka, samanborið við 945 milljarða franka árið áður. Stærð forðans má m.a. rekja til aðgerða bankans á síðustu árum til að veikja frankann.

Högg fyrir hið opinbera

Í ljósu afkomu bankans hefur hann ákveðið að hætta við árlega greiðslu til ríkissjóðs og stjórnsýslueininga í landinu. Þetta er aðeins í annað skiptið í sögu bankans sem hann greiðir ekki út arð til hins opinbera.

Svissneska ríkið og mörg af hinum 26 kantónum neyðast nú til að aðlaga útgjöld sín fyrir næsta ár. Til samanburðar þá greiddi SNB 6 milljarða franka, eða sem nemur 930 milljörðum króna, til hins opinbera vegna ársins 2021.

Svissneski seðlabankinn er frábrugðinn flestum seðlabönkum en hlutabréf í SNB eru skráð á markað. Um helmingur bréfanna er í eigu opinberra stofnana en restin í eigu fyrirtækja og fjárfesta.