Samkvæmt Kauphallartilkynningu hefur Alvotech ákveðið að veita fjórum óháðum stjórnarmeðlimum líftæknilyfjafyrirtækisins kauprétti sem hluti af samþykktri starfskjarastefnu stjórnar.
Hver stjórnarmeðlimur fær kauprétti á alls 16.428 hlutum og miðast lausnarverðið við gengi Alvotech á degi aðalfundar sem var um 14 Bandaríkjadalir eða um 1.950 krónur.
Hjörleifur Pálsson, sem kom nýr inn í stjórnina í ár fær úthlutuð takmörkuð hlutabréfaréttindi (e. restricted stock unit) fyrir 17.870 hlutum og er lausnarverðið 13,99 dalir á hlut.
Ávinnslutími er þrjú ár frá úthlutun kaupréttanna, þ.e. þriðjungur kaupréttanna virkjast á hverju ári sem liðið er frá úthlutun og þarf rétthafi að sitja í stjórn Alvotech til að geta nýtt kaupréttinn.
Mun þetta vera í annað sinn sem aðalfundur félagsins ákveður að veita óháðum stjórnarmeðlimum kauprétti en fyrsta úthlutun fór fram í fyrra.
Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Alvotech hefur veitt er jafn þeim fjölda kauprétta sem veittir voru stjórnarmönnum þann 6. júní 2023.
Í fyrra fengu fjórir stjórnarmeðlimir kauprétti fyrir alls 109.524 hlutum í Alvotech. Lausnarverðið var 8,4 dalir sem var í samræmi við opnunarverð Alvotech á degi aðalfundar í fyrra.
Ávinnslutími þeirra er einnig þrjú ár frá úthlutun kaupréttanna en enginn stjórnarmeðlimur hefur nýtt sér kaupréttina að svo stöddu.