Samkvæmt Kauphallartilkynningu hefur Alvotech ákveðið að veita fjórum ó­háðum stjórnar­með­limum líf­tækni­lyfja­fyrir­tækisins kaup­rétti sem hluti af samþykktri starfskjarastefnu stjórnar.

Hver stjórnar­með­limur fær kaup­rétti á alls 16.428 hlutum og miðast lausnar­verðið við gengi Al­vot­ech á degi aðal­fundar sem var um 14 Banda­ríkja­dalir eða um 1.950 krónur.

Hjör­leifur Pálsson, sem kom nýr inn í stjórnina í ár fær út­hlutuð tak­mörkuð hluta­bréf­a­réttindi (e. restricted stock unit) fyrir 17.870 hlutum og er lausnar­verðið 13,99 dalir á hlut.

Á­vinnslu­tími er þrjú ár frá út­hlutun kaup­réttanna, þ.e. þriðjungur kaup­réttanna virkjast á hverju ári sem liðið er frá út­hlutun og þarf rétt­hafi að sitja í stjórn Al­vot­ech til að geta nýtt kaup­réttinn.

Mun þetta vera í annað sinn sem aðal­fundur fé­lagsins á­kveður að veita ó­háðum stjórnar­með­limum kaup­rétti en fyrsta út­hlutun fór fram í fyrra.

Heildar­fjöldi úti­standandi kaup­rétta sem Al­vot­ech hefur veitt er jafn þeim fjölda kaup­rétta sem veittir voru stjórnar­mönnum þann 6. júní 2023.

Í fyrra fengu fjórir stjórnar­með­limir kaup­rétti fyrir alls 109.524 hlutum í Al­vot­ech. Lausnar­verðið var 8,4 dalir sem var í sam­ræmi við opnunar­verð Al­vot­ech á degi aðal­fundar í fyrra.

Á­vinnslu­tími þeirra er einnig þrjú ár frá út­hlutun kaup­réttanna en enginn stjórnar­með­limur hefur nýtt sér kaup­réttina að svo stöddu.