Stjórn Festi hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna starfsloka Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra félagsins. Stjórnin segist hafa haft forgöngu að samtali um starfslok hans en við þær aðstæður hafi hann óskað eftir að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp „með hagsmuni sjálf síns og félagsins í huga“. Fallist hafi verið á þá málaleitan og náðust samningar samdægurs á milli félagsins og forstjóra „eins og tilkynning til kauphallar þann dag ber með sér“.

„Með því taldi stjórn að málinu væri lokið og sátt væri um málsmeðferðina. Enginn ágreiningur er um að stjórn hafði forgöngu um starfslokin og að málið var leitt til lykta með samkomulagi við forstjóra í kjölfarið, enda eitt aðalverkefni stjórnar. Samtal við hluthafa þegar svona ferli stendur yfir, eins og ákall virðist vera um, er beinlínis á skjön við reglur kauphallarinnar.“

Sjá einnig: Kauphöllin með mál Festi til skoðunar

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið í gær að Kauphöllin væri með tilkynninguna til skoðunar. Í tilkynningunni kemur fram að stjórnin hafi fengið fyrirspurn frá kauphöll um málið.

Tenging við Þórð Má eigi sér enga stoð

Stjórnin segist standa við ákvörðun sína og byggi hana á því mati að félagið standi nú á tímamótum eftir mörg ár uppbyggingar og mótunar.

„Þessi tímamót, á sama tíma og samkeppni er að aukast á öllum rekstrarsviðum félagsins og ólík verkefni blasa við, kalla á nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verkin. Hluthafar geta að sjálfsögðu haft aðra skoðun á þessu máli og komið þeirri skoðun á framfæri við stjórn eftir viðeigandi boðleiðum,“ skrifar stjórnin.

Hún bætir við að erfitt sé að taka það samtal í smáatriðum á hluthafafundi „ þar sem til staðar eru, auk hluthafa, fjölmiðlar og fulltrúar samkeppnisaðila“.

Stjórnin tekur einnig fyrir orðróma um að Þórður Már Jóhannsson, sem lét störfum sem stjórnarformaður Festi í byrjun árs, hafi átt hlut í uppsögn Eggerts.

„Tenging þessa máls við mál fyrrverandi stjórnarformanns, aðdraganda afsagnar hans, og fleiri vangaveltur af þeim meiði, eiga sér hins vegar enga stoð í raunveruleikanum og er vísað algjörlega á bug.“

Óska eftir frið

Í yfirlýsingunni segist stjórnin gera sér grein fyrir að eignarhalds skráðra félaga á Íslandi, þar sem lífeyrissjóðir fara oft með stóran hlut í samkeppnisaðilum, sé vandmeðfarið og krefjandi. Lífeyrissjóðir verði að tryggja virka samkeppni sem þeir eiga hlut í. Einnig er minnst á að Festi sé aðili að sátt við samkeppnisyfirvöld „sem virða ber í hvívetna“.

„Það er eindregin ósk og eina leiðarljós stjórnar að friður myndist um starfsemi félagsins, starfsfólk þess og stjórnendur, hluthöfum öllum til hagsbóta. Félagið býr að öflugri framkvæmdastjórn og kröftugu starfsfólki um land allt sem er tilbúið í framtíðina.“