Stjórn Háskólans í Reykjavík (HR) telur sér ekki fært að skerða rekstrartekjur skólans um 1.200 milljónir á ári með því að samþykkja hugmynd Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskólaráðherra um aukið ríkisframlag gegn afnámi skólagjalda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HR.

Framlög til sjálfstætt starfandi háskóla, þar á meðal HR, hafa verið 60-80% af því sem þeir fengju ef rekstrarform þeirra væri opinbert. Áslaug Arna tilkynnti í vikunni að umræddum háskólum verði boðið óskert framlag gegn því að skólagjöld verði felld niður.

Í tilkynningu HR er vísað í ályktun sem Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) sendi frá sér í morgun en í henni sögðust nemendur vilja halda í sérstöðu skólans sem mörkuð var við stofnun hans fyrir 26 árum.

„Það er mat nemendanna að það væri ómögulegt að halda þessari sérstöðu sem nemendur í HR kjósa með þeim fjárskerðingum sem skólinn stæði frammi fyrir með breytingunni en ráðuneytið byggir sjálft á því að tekjutap HR ef þessi leið yrði farin nemi 1,1-1,2 milljörðum króna á ársgrundvelli. Stjórn og stjórnendur skólans eru sammála því mati,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR.

„Þá er líka mikilvægt að það komi fram að ekki er verið að auka við það fjármagn sem fer inn í háskólakerfið í heild sinni heldur er verið að breyta því hvernig kökunni er skipt. Þetta þýðir með öðrum orðum að heildarfjármagn til háskólanna myndi minnka um ríflega 3 milljarða króna, ef allir skólar tækju þessu boði. Það myndi koma alvarlega niður á starfsemi fleiri skóla en okkar.“

Ragnhildur segir að stjórn og stjórnendur vilji áfram geta boðið stúdentum upp á það val sem þau hafa í dag.

„Nemendum hér býðst að langstærstum hluta að stunda nám í sömu greinum við aðra skóla, en velja að koma til okkar þótt við innheimtum skólagjöld, sem eru á þessu skólaári 288 þúsund krónur á önn, og njóta þess sem HR býður. Við viljum að þeim standi það áfram til boða,“ segir Ragnhildur.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, stjórnarformaður Háskólans í Reykjavík, segir að stjórn skólans sé stolt af því starfi sem fari fram innan veggja skólans. Skólinn útskrifi meirihluta tæknimenntaðra í verkfræði, tölvunarfræði og iðn- og tæknifræði og hlutfallslega fleiri karlmenn en aðrir háskólar.

„Við viljum halda okkar góða starfi áfram; að bjóða áfram framúrskarandi kennslu, aðstöðu og þjónustu við nemendur og standa fyrir rannsóknum á heimsmælikvarða,“ segir Guðbjörg Edda.