Stjórn Origo telur að yfirtökutilboð Alfa framtaks í upplýsingatæknifyrirtækið muni ekki hafa neikvæð áhrif á hagsmuni fyrirtækisins eða starfsmanna en segir þó ljóst að tilboðið kunni að hafa í för með sér talsverðar breytingar sem gætu m.a. dregið úr seljanleika hlutabréfa félagsins. Þetta kemur fram í greinargerð sem stjórnin birti eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Framtakssjóðurinn Umbreyting II, í rekstri Alfa, festi kaup á 29,3% hlut í Origo í desember fyrir tæplega 4,1 milljarð króna á genginu 101 krónu á hlut. Sjóðurinn lagði í kjölfarið fram valfrjálst tilboð í hlutafé Origo á 101 krónu á hlut.
Stjórn Origo segir að miðað við hlutabréfaverð félagsins í aðdraganda tilboðs Alfa Framtaks geti hún ekki séð að krónu tilboðsverðið sé á nokkurn hátt ósanngjarnt.
Stjórnin segist jafnframt fagna aðkomu virks hluthafa að rekstri félagsins og telur hana geta styrkt félagið til áframhaldandi vaxtar. Í greinargerðinni segir að tilboðið hafi verið kynnt á starfsmannafundum á vegum félagsins og að ekki hafi borist formlegar athugasemdir frá starfsfólki eða fulltrúum þeirra við tilboðinu.
Í tilboðsyfirliti sínu sagðist Alfa Framtak telja eðlilegt að til skoðunar komi hvort að óskað verði eftir afskráningu Origo úr Kauphöllinni „til að að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem ráðast þarf í“.
Stjórn Origo segir að í kjölfar 28 milljarða króna sölu á eignarhlut félagsins í Tempo, og sem hluti af stefnumótunarvinnu stjórnar, hafi verið rætt um kosti og galla þess að hafa hlutabréf félagsins áfram skráð á aðalmarkaði Kauphallarinnar.
„Stjórn hafði ekki tekið endanlega afstöðu til þess máls þegar yfirtökutilboð tilboðsgjafa kom fram en á vettvangi stjórnar var umræða um mögulega afskráningu almennt jákvæð.“