Stjórn Tesla hefur skipað sérstaka nefnd sem vinnur nú að endurskoðun á kaupaukakjörum Elon Musk forstjóra félagsins.
Til skoðunar er hvort leggja eigi fram nýjan samning eða aðrar leiðir til að bæta Muski fyrir störf sín, komi til þess að upphaflegi samningurinn frá 2018 verði ekki endurheimtur fyrir dómstólum í Delaware.
Samkvæmt heimildum Financial Times skipa tveir stjórnarmenn nefndina: stjórnarformaðurinn Robyn Denholm og Kathleen Wilson-Thompson. Sú síðarnefnda leiddi áður sérstaka nefnd sem mat 2018 samninginn eftir að honum var hafnað af dómstól.
Lagalegur hnútur og stórar fjárhæðir
Árið 2018 samþykkti stjórn Tesla stærsta kaupaukakerfi í sögu bandarískra fyrirtækja. Musk fékk árangurstengda úthlutun á 304 milljónum hluta í félaginu en bréfin voru metin á allt að 146 milljarða dala þegar mest lét.
Samkvæmt samningnum fékk Musk rétt til að nýta réttindin árið 2023 eftir að fyrirtækið náði metnaðarfullum fjárhags- og verðmætaskilyrðum.
Í janúar 2024 úrskurðaði dómari í Delaware, Kathaleen McCormick, samninginn ólögmætan.
Hún taldi stjórnina hafa skort sjálfstæði og gagnrýndi nánast blint traust hennar á Musk.
Í dómnum sagði hún að stjórnarmenn hefðu hagað sér „eins og undirgefnir þjónar gagnvart drottnandi yfirmanni.“
Óvissa um framhaldið
Nýja nefndin hefur haft samband við stærri hluthafa til að fá fram sjónarmið þeirra um áframhaldandi forystuhlutverk Musks og mögulega umbun fyrir fyrri árangur.
Til skoðunar er meðal annars hvort Musk eigi að fá nýjan kaupaukasamning sem yrði árangurstengdur eða hvort aðrar leiðir skulda skoðaðar sem ekki kalla fram miklar bókhaldslegar skuldbindingar eða skattbyrði.
Ef upphaflegi samningurinn fær grænt ljós frá hæstarétti Delaware-ríkis eykst hlutur Musks í Tesla úr rúmum 13% í yfir 20%.
Musk hótar brotthvarfi
Musk hefur gert það að skilyrði fyrir áframhaldandi forystu sinni að hann fái aukin áhrif og meiri eignarhlut í Tesla.
Hann hefur haldið því fram að án að minnsta kosti 25% hlutafjár geti hann hvorki tryggt sig gegn öðrum hluthöfum né stýrt gervigreindardeild Tesla á ábyrgan hátt.
Samhliða þessu hefur hann stofnað og fært saman tvö ný gervigreindarfyrirtæki undir merkjum X, áður Twitter, og xAI.
Fjarvera hans frá daglegum rekstri Tesla hefur vakið athygli fjárfesta og dregið úr trausti á einbeitingu hans að bílaframleiðslunni.
Á síðustu misserum hefur umræðan um tengsl Musks við Donald Trump og þátttöku hans í stjórnmálum valdið vaxandi gagnrýni.
Sala rafbíla hefur dalað í Bandaríkjunum og Evrópu og vöxtur í Kína minnkað í kjölfar harðnandi samkeppni og tollastríðs Trumps.
Þrátt fyrir að Musk hafi lofað í apríl að verja „mun meiri tíma í Tesla“ og auka viðveru á aðalstöðvum fyrirtækisins í Austin, Texas, hefur hlutabréfaverð félagsins ekki náð sér að fullu á strik.
Gengi bréfanna er enn um 32% lægra en í desember.