Søren Skou, stjórnarformaður Controlant, hefur tekið sæti í stjórn danska sláturhúsa- og kjötvinnslufyrirtækisins Danish Crown.
Hann hefur jafnframt verið tilnefndur af tilnefningarnefnd sem stjórnarformaður félagsins og allt stefnir því í að hann verði fyrsti utanaðkomandi stjórnarformaður Danish Crown sem er í eigu rúmlega 5.300 danskra bænda.
Søren Skou tók við stjórnarformennsku hjá íslenska tæknifyrirtækinu Controlant í byrjun þessa árs. Hann er þekktastur fyrir að hafa gegnt hlutverki forstjóra A. P. Moller-Maersk, stærsta flutningafélagi heims, á árunum 2016 til 2022.
Hinn sextugi Skou gegnir einnig stjórnarformennsku hjá fjárfestingarfélaginu C.W. Obel, byggingarvörukeðjunnar Bygma Gruppen A/S, Skyborn Renewables GmbH sem sérhæfir sig í vindorkuverkefnum úti á hafi, og VTG GmbH sem sérhæfir sig í vöruflutningum með járnbrautum. Hann er er einnig varastjórnarformaður Nokia OY og formaður The Maersk McKinney Moller Center for Zero Carbon Shipping.
Erfiður rekstur hjá Danish Crown
Í umfjöllun viðskiptamiðilsins Børsen segir að Danish Crown hafi gengið í gegnum krefjandi tímabil að undanförnu, sem endurspeglist m.a. í því að félagið gat ekki greitt svínabændum jafnhátt verð fyrir svínakjöt og meðalverð í Evrópu.
Tilkynning um ráðningu Skou sem stjórnarformanns komi einni viku eftir að félagið birti ársuppgjör fyrir fjárhagsárið 2023/24.
Arðsemi félagsins hélt áfram að minnka. Hagnaður Danish Crown nam ríflega einum milljarði danskra króna, eða um 20 milljörðum íslenskra króna, og dróst saman um 29% frá fyrra ári. Minni hagnað má einkum rekja til niðurfærslna í tengslum við lokun sláturhúss í Ringsted.
Nýr forstjóri, Niels Duedahl, tók við Danish Crown í september síðastliðnum. Hann hefur á sínum fyrstu mánuðum í starfi ráðist í stórar uppsagnarlotur. Samhliða birtingu ofangreinds uppgjörs sagði hann að félagið sé að skoða frekari aðgerðir til að bæta reksturinn og fjárhagsstöðu félagsins.