Richard Davies, varaformaður stjórnar Alvotech, hefur keypt hlutabréf í félaginu fyrir rúmlega 200.000 Bandaríkjadali, samkvæmt kauphallartilkynningu sem send var Fjármálaeftirliti Lúxemborgar (CSSF).
Viðskiptin fóru fram miðvikudaginn 14. maí síðastliðinn og náðu til 19.988 hluta á genginu 10,18 Bandaríkjadalir á hlut, sem gerir samtals fjárhæð upp á 203.872 dali. Á gengi dagsins er um 26,5 milljónir íslenskra króna að ræða.
Tilkynningin var birt fimmtudaginn 15. maí og skráð samkvæmt reglum Evrópusambandsins um opinbera upplýsingagjöf um viðskipti stjórnenda. Þar kemur fram að um sé að ræða bein kaup af hálfu stjórnarmannsins sjálfs, ekki í gegnum tengda aðila.
Viðskiptin voru framkvæmd utan skipulegs verðbréfamarkaðar. Engin viðbótarskýring fylgir um tilefni viðskiptanna, en kaup stjórnenda í eigin félagi eru jafnan túlkuð sem merki um trú á framtíðarhorfur fyrirtækisins.
Alvotech birti ársthlutauppgjör í byrjun mánaðar en þar segir að félagið geri ráð fyrir að heildartekjur félagsins í ár verði á bilinu 600-700 milljónir dala, en til samanburðar gerði afkomuspáin sem félagið birti í lok mars ráð fyrir að heildartekjur verði á bilinu 570-670 milljónir dala.
Ný afkomuspá gerir ráð fyrir að aðlöguð EBITDA framlegð verði á bilinu 200-280 milljónir dollara en fyrri spá gerði ráð fyrir 180-260 milljónum dala.
Alvotech tilkynnti í mars að fyrirtækið hefði keypt þróunarstarfsemi sænska líftæknifyrirtækisins Xbrane Biopharma AB fyrir um 3,6 milljarða íslenskra króna.
Samhliða kaupunum myndi Alvotech í framhaldinu skoða mögulega skráningu í kauphöllinni í Stokkhólmi með útgáfu sænskra heimildaskírteina (SDR).