Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), næststærsti lífeyrissjóður landsins, uppfærði í lok síðasta árs hluthafastefnu sjóðsins en hún hafði verið nær óbreytt frá árinu 2018. Í nýju stefnunni er tekið skýrar til orða um að sjóðurinn telur almennt æskilegt að tilnefningarnefnd sé starfrækt hjá þeim félögum í eignasafninu sem stefnan nær til.

Rúm tíu ár eru frá því að fyrsta tilnefningarnefndin var sett á fót hjá skráðu félagi á Íslandi en í dag eru flest félög á aðalmarkaðnum með slíka nefnd. Henni er falið að leggja mat á frambjóðendur til stjórnar og tilnefna hóp einstaklinga, m.a. út frá því að samsetning stjórnarmanna tryggi nægilega breidd í þekkingu, reynslu og bakgrunni.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), næststærsti lífeyrissjóður landsins, uppfærði í lok síðasta árs hluthafastefnu sjóðsins en hún hafði verið nær óbreytt frá árinu 2018. Í nýju stefnunni er tekið skýrar til orða um að sjóðurinn telur almennt æskilegt að tilnefningarnefnd sé starfrækt hjá þeim félögum í eignasafninu sem stefnan nær til.

Rúm tíu ár eru frá því að fyrsta tilnefningarnefndin var sett á fót hjá skráðu félagi á Íslandi en í dag eru flest félög á aðalmarkaðnum með slíka nefnd. Henni er falið að leggja mat á frambjóðendur til stjórnar og tilnefna hóp einstaklinga, m.a. út frá því að samsetning stjórnarmanna tryggi nægilega breidd í þekkingu, reynslu og bakgrunni.

„Almennt er reynsla okkar af tilnefningarnefndum góð og heilt yfir teljum við þetta fyrirkomulag virðisaukandi. Nefndirnar eru betur í stakk búnar en einstakir hluthafar að mynda sér heildstæða skoðun á störfum stjórnar og samsetningu hennar. Nefndin getur átt samtöl við staka stjórnarmenn, sem við gerum ekki, og fær betri endurgjöf frá stjórninni hvort það skorti ákveðna þekkingu,“ segir Arne Vagne Olsen, forstöðumaður eignastýringar LIVE.

Hann bætir þó við að nefndirnar séu ekki gallalausar og það geti komið tilfelli þar sem sjóðurinn leggst gegn tillögum þeirra.

Tilnefningarnefndir eru yfirleitt skipaðar tveimur eða þremur nefndarmönnum, sem eru ýmist kosnir á aðalfundi eða skipaðir af stjórn félags. Í mörgum tilfellum hefur einn af þremur nefndarmönnum einnig setið í stjórn viðkomandi félags, þó að slíkum dæmum hafi farið fækkandi á síðustu árum. LIVE telur að öllu jöfnu sé heppilegra að tilnefningarnefnd sé ekki skipuð stjórnarmanni.

„Það eru kostir og gallar við að hafa stjórnarmann í nefndinni. Kostirnir felast m.a. í að nefndin hefur líklega meiri innsýn í störf stjórnar, dýnamíkina, samtöl á stjórnarfundum og annað slíkt. Gallinn er sá að það kann að draga hlutleysi nefndarinnar í efa þegar stjórnarmaður sem er í framboði er líka hluti af því ferli að velja á milli stjórnarmanna í framboði,“ segir Arne Vagn.

„Við teljum að þar sem nefndirnar geti átt samtöl við stjórnarmenn og rýnt sjálfsmat stjórna, auk þess að geta rætt við stjórnendur viðkomandi félaga, ættu þær að búa yfir nægilegum upplýsingum til að mynda sér góða sýn á skipan stjórnar.“

Sumir fjárfestar hafa gagnrýnt vægi tilnefningarnefnda við skipan stjórna. Spurður um þessa gagnrýni, segir Arne Vagn að það sé kannski óheppilegt að oft eigi flestir, ef ekki allir, þeir frambjóðendur sem fá ekki tilnefningu það til að draga framboð sitt til baka.

„Það er ekki langt síðan þessar nefndir voru settar á fót og þær hafa tekið breytingum til batnaðar á undanförnum árum. Þetta er kannski hluti af því hvernig þessar nefndir eiga eftir að þroskast. Nefndirnar eru þó ekki alráðar, þó sumum kunni að finnast það. Það eru dæmi um það að sjóðir eins og við hafi kosið að fylgja ekki tillögum nefndanna og greitt atkvæði með öðrum frambjóðendum.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um nýja hluthafastefnu LIVE í Viðskiptablaði vikunnar.