Útgjöld fyrirtækja í bandarísku S&P 500 vísitölunni vegna flugferða forstjóra og stjórnarmanna með einkaþotum námu 33,8 milljónum dala eða 4,7 milljörðum króna á síðasta ári sem er 35% aukning frá fyrra ári. Þessi útgjaldaliður hefur ekki verið hærri hjá stærstu skráðu fyrirtækjum Bandaríkjanna frá árinu 2012, samkvæmt samantekt ISS Corporate Solutions.
Mörg fyrirtæki slökuðu á aðhaldi hvað varðar flug með einkaþotum vegna sóttvarnartakmarkana og minna flugframboðs í Covid-faraldrinum.
Meðal fyrirtækja sem eyddu mestum pening í flugferðir með einkaþotum var Meta, móðurfélag Facebook, og flugvéla- og vopnaframleiðandinn Lockheed Martin. Meta eyddi 1,6 milljónum dala í einkaþotur fyrir forstjórann Mark Zuckerberg í fyrra.
Lockheed, sem varði 1,1 milljón dala, í flug fyrir forstjórann James Taiclet, segist hafa aukið útgjaldarammann fyrir einkaþotur „í ljósi Covid-19 faraldursins“.
Meðalfjárhæðin sem fyrirtækin í S&P 500 vísitölunni eyddu í flug fyrir forstjóra og stjórnarmenn nam ríflega 170 þúsund dali eða um 22,5 milljónum króna á fyrirtæki.
Breska dagblaðið Financial Times hefur eftir Justin Crabbe, forstjóra Jettly sem leigir út einkaþotur, að eftir að fyrirtæki hafa boðið stjórnendum upp á einkaflug þá er „nokkuð erfitt að fara aftur í hefðbundið áætlunarflug“.