Fjórtán starfs­menn Öl­gerðarinnar Egils Skalla­gríms­sonar hf. nýttu kauprétt sinn í félaginu í gær og til­kynnti félagið í morgun að hluta­fé verði hækkað um 20.812.500 krónur að nafn­virði.

Nýting kaupréttarins er liður í hvataáætlun sem byggir á kaupréttaráætlun sem samþykkt var á aðal­fundi félagsins árið 2021 og upp­færð á aðal­fundi í byrjun mánaðar.

Hlut­hafa­fundur þann 8. maí sl. samþykkti jafn­framt nýja heimild stjórnar til að hækka hluta­fé í tengslum við kaupréttar­samninga, að há­marki um 80 milljónir hluta til ársins 2030.

Meðal þeirra sem nýttu kauprétt sinn voru lykil­stjórn­endur Öl­gerðarinnar.

Þeir keyptu hluti á genginu 5,96 krónur á hlut og seldu í kjölfarið hluta eða alla hlutina á 18,60 krónur, sam­kvæmt til­kynningum til Kaup­hallarinnar.

Eftir­farandi stjórn­endur tóku þátt í við­skiptum í gær:

  • Andri Þór Guðmundsson, forstjóri: Nýtti kauprétt að 2.250.000 hlutum á 5,96 kr. og seldi sama dag á 18,60 kr. Heildarsölufjárhæð: 41.850.000 kr. Mismunur kaup- og söluverðs: 28.215.000 kr.
  • Jón Þorsteinn Oddleifsson, framkvæmdastjóri fjármála- og mannauðssviðs: Nýtti kauprétt að 2.250.000 hlutum og seldi sama dag. Heildarsölufjárhæð: 41.850.000 kr. Mismunur kaup- og söluverðs: 28.215.000 kr.
  • Óli Rúnar Jónsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs: Nýtti kauprétt að 2.250.000 hlutum og seldi sama dag. Heildarsölufjárhæð: 41.850.000 kr. Mismunur kaup- og söluverðs: 28.215.000 kr.
  • Guðmundur Pétur Ólafsson, framkvæmdastjóri Egils Óáfengra drykkja: Nýtti kauprétt að 2.250.000 hlutum og seldi sama dag. Heildarsölufjárhæð: 41.850.000 kr. Mismunur kaup- og söluverðs: 28.215.000 kr.
  • Gunnlaugur Einar Briem, framkvæmdastjóri vörustjórnunar: Nýtti kauprétt að 2.250.000 hlutum og seldi sama dag. Heildarsölufjárhæð: 41.850.000 kr. Mismunur kaup- og söluverðs: 28.215.000 kr.
  • Júlía Eyfjörð Jónsdóttir, framkvæmdastjóri framleiðslu- og tæknisviðs: Nýtti kauprétt að 787.500 hlutum og seldi þá alla sama dag. Heildarsölufjárhæð: 14.655.000 kr. Mismunur kaup- og söluverðs: 9.875.250 kr.
  • María Jóna Samúelsdóttir, framkvæmdastjóri Danól: Nýtti kauprétt að 2.250.000 hlutum. Engin sala var skráð sama dag.

Allar færslur fóru fram utan skipu­legs verðbréfa­markaðar og voru í samræmi við skilmála veitts kaupréttar frá árinu 2021.