Æðstu stjórnendur og stjórnarmenn Spotify hafa selt hlutabréf í tónlistarveitunni fyrir samtals 1,25 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 175 milljörðum króna, í ár. Þar af hafa tveir stofnendur Spotify selt í félaginu fyrir rífleag 900 milljónir dala.
Hlutabréfaverð Spotify hefur hækkað um meira en 140% í ár.
Ofangreind fjárhæð nær yfir sölu tuttugu stjórnenda og stjórnarmanna í ár. Samkvæmt úttekt Financal Times jókst umfangið í nóvember og desember sem má líklega rekja til þess að hlutabréfaverð Spotify hefur hækkað um tæplega fimmtung frá lokum októbermánaðar.
Daniel Ek, forstjóri og annar stofnenda Spotify, hefur selt hlutabréf í tónlistarveitunni fyrir tæplega 350 milljónir dala eða nærri 49 milljarða íslenskra króna í ár. Bloomberg metur auðæfi Ek á 7 milljarða dala.
Martin Lorentzon, sem stofnaði félagið ásamt Ek árið 2006, hefur selt í Spotify fyrir meira en 550 milljónir dala eða um 77 milljarða króna í ár. Lorentzon situr enn í stjórn félagsins.
Gustav Söderström, vöru- og tæknistjóri Spotify, hefur selt í félaginu fyrir meira en 106 milljónir dala eða nærri 15 milljarða króna í ár. Hann hefur starfað hjá Spotify frá árinu 2009.
Mannauðsstjóri Spotify, Katarina Berg, seldi hlutabréf í félaginu fyrir 38 milljónir dala eða yfir 5 milljarða króna. Þá seldi rekstrarstjórinn Alex Nordström í félaginu fyrir 63 milljónir dala eða um 8,8 milljarða króna.
Eftir umtalsverða hækkun í ár er markaðsvirði Spotify komið upp í 92,5 milljarða dala. Til samanburðar fór markaðsvirði félagsins undir 20 milljarða dala þegar hlutabréfaverð þess náði lægstu lægðum í árslok 2022.
Í umfjöllun FT segir að markaðsaðilar hafi verðlaunað Ek fyrir aukna áherslu á arðsemi hjá Spotify. Eftir að hafa sagt upp fjórðungi af starfsfólki félagsins árið 2023 og hækkað áskriftarverð hefur Spotify skilað hagnað á hverjum ársfjórðungi í ár. Tónlistarveitunni tókst að bæta framlegð og viðhalda á sama tíma miklum vexti í fjölda áskrifenda.