Húsnæðisstefna stjórnvalda stefnir að því að nær helmingur nýrra íbúða í Reykjavík verði utan við almennan markað næstu ár.

Í nýrri greiningu segir Viðskiptaráð Íslands þessa stefnu fela í sér ógagnsæ framlög til þriðja aðila, valda kostnaðarhækkunum og brjóta í bága við grundvallarreglur jafnræðis og gagnsæis í opinberum rekstri.

Samkvæmt áætlunum Reykjavíkurborgar munu einungis 55% nýrra íbúða sem reistar verða á næstu tíu árum fara inn á almennan húsnæðismarkað, en 45% verða niðurgreidd húsnæðisúrræði, þar á meðal húsnæðisfélög, hagkvæmt og grænt húsnæði og félagslegt húsnæði.

Viðskiptaráð bendir á að þessi stefna dragi úr framboði íbúða á almennum markaði, sérstaklega í miðborginni þar sem hlutfall niðurgreiddra íbúða er hæst.

Greiningin vekur athygli á því að meirihluti opinberrar niðurgreiðslu rennur til húsnæðisfélaga eins og Bjargs, sem er stýrt af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og BSRB. Aðgangur að íbúðum Bjargs er bundinn því að viðkomandi hafi verið félagi í stéttarfélagi í 16 af síðustu 24 mánuðum, sem samrýmist illa grundvallarsjónarmiðum í opinberum rekstri, svo sem gagnsæi, jafnræði og félagafrelsi.

69 milljarðar í niðurgreiðslur – 90% til þriðja aðila

Niðurgreiðslur ríkis og sveitarfélaga til niðurgreiddra húsnæðisúrræða í Reykjavík nema 69 milljörðum króna til ársins 2033, þar af fara 64 milljarðar til húsnæðisfélaga. Þetta lækkar stofnkostnað íbúða hjá þessum félögum um allt að 46%, sem skapar samkeppnisforskot á kostnað skattgreiðenda.

Viðskiptaráð bendir á að forkaupsréttir sem Reykjavíkurborg veitir húsnæðisfélögum lækki söluandvirði byggingarréttar, sem feli í sér falda meðgjöf sem ekki skilar sér til útsvarsgreiðenda. Forkaupsréttir lækka verð og fela í sér falin framlög

Stefna stjórnvalda felur í sér markvissa aukningu leigumarkaðar, en samkvæmt könnunum vilja aðeins 8% þeirra sem leigja gera það áfram. Viðskiptaráð bendir á að ánægja sé marktækt minni meðal leigjenda og leggur til að hið opinbera einbeiti sér frekar að því að auka framboð og valfrelsi á frjálsum markaði.

Tillögur Viðskiptaráðs: Afnema niðurgreiðslur og auka gagnsæi

Viðskiptaráð leggur fram þrjár megintillögur:​

  1. Úthlutun lóða á markaðsverði. Allir byggingarréttir verði seldir í opnu útboði og þar með verði hætt að veita falin framlög í formi lóðameðgjafar. Ef stjórnvöld vilja afhenda lóðir eða íbúðir á ákveðnum svæðum til ákveðinna aðila mætti gera það með því að veita viðkomandi heimild til að ganga inn í opið útboðsferli á markaðsverði miðað við fyrirliggjandi niðurstöðu útboðsins. Þannig er tryggt að útsvarsgreiðendur fái hámarksverð fyrir eignir síns sveitarfélags.
  2. Hætta stofnframlögum Viðskiptaráð leggur til að stjórnvöld hætti að veita stofnframlög til íbúðauppbyggingar. Stofnframlögin fela í sér mikla áhættutöku fyrir skattgreiðendur, sem eiga með þeim mikið undir því að eignum í höndum þriðja aðila sé ráðstafað á skynsamlegan hátt og haldi verðgildi sínu.
  3. HMS hætti lánveitingum – Viðskiptaráð leggur til að öllum veitingum niðurgreiddra lána frá HMS verði hætt. Lán opinberrar stofnunar til einkaaðila þýðir að öll áhættan við slík lán liggur hjá skattgreiðendum. Þannig getur lánið aðeins fallið á þá sem engan ávinning hafa af veitingu lána á vöxtum sem eru undir markaðskjörum. Jafnframt er Viðskiptaráð mótfallið því að hið opinbera sé í samkeppni við einkaaðila á mörkuðum sem þeir einkaaðilar eru fullfærir um að standa undir. Lánamarkaður er þar engin undantekning.

„Sé vilji stjórnvalda til að niðurgreiða ákveðin húsnæðisúrræði ættu yfirvöld að gera það í gegnum bein fjárframlög, en slíkt myndi tryggja gagnsæi um ráðstöfun skattfjár. Heildartjón skattgreiðenda vegna mislukkaðra útlána Íbúðalánasjóðs (nú ÍL-sjóðs) nemur mörg hundruð milljörðum króna og er eitt skýrasta dæmi þess að ógagnsæ áhættutaka stjórnvalda getur valdið ævintýralegu tjóni.”

„Stefna stjórnvalda á húsnæðismarkaði byggir veikum grunni. Hún samrýmist illa jafnræðissjónarmiðum með því að ráðstafa stórum hluta nýrra íbúða í niðurgreidd úrræði. Þá veltir hún miklum kostnaði niðurgreiðslna og áhættu yfir á skattgreiðendur. Hún eykur loks óhagkvæmni og kostnað íbúa. Stjórnvöld ættu að vinda ofan af þessari stefnu, enda þjónar húsnæðismarkaðurinn best hagsmunum almennings þegar jafnræði, gagnsæi og valfrelsi ráða för,” segir í greiningunni.