Sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telja að svigrúm geti skapast hér á fyrir lækkun eiginfjárhlutfalla bankanna.
Þeir stíga alla jafnan varlega til jarðar í ályktunum sínum. Þrátt fyrir það víkja þeir að því að svigrúm kunni að vera fyrir lækkun á eiginfjárkröfu bankanna á næstu misserum. Í síðustu úttekt sjóðsins á stöðu mála hér á landi segir að eiginfjárkrafa bankana sé há í samanburði við önnur Evrópuríki en aftur á móti gæti svigrúm skapast til lækkunar samhliða lækkandi kerfisáhættu. Sérfræðingar sjóðsins segja þó að bíða ætti með slíka aðgerð þar til að áhrif innleiðingar CRR III regluverksins verða að fullu komin í ljós.
Til stendur að innleiða CRR III á næstunni. Ítarlega var fjallað um regluverkið í Viðskiptablaðinu 9. febrúar síðastliðinn. Segja má að regluverkið afhjúpi að einhverju leyti þann vanda sem menn eru komnir í með háar eiginfjárkröfur á íslensku bankana. Breytingarnar draga meðal annars úr eiginfjárkröfum lítilla og meðalstórra sem styðjast við staðalaðferð við útreikning áhættuvoga. Íslensku bankarnir styðjast við staðalaðferð við útreikning áhættuvoga ólíkt til að mynda norrænum bönkum. Í fyrstu mætti ætla að breytingin kæmi íslensku bönkunum og neytendum hér á landi vel. Lengi vel hefur verið bent á að áhættuvogir íslenskra banka þegar kemur að fasteignalánum séu mun hærri en banka á Norðurlöndum án nokkurrar sýnilegrar ástæðu – það verður ekki séð að það sé áhættumeira að veita fasteignalán hér á landi en í Þrándheimi eða Södertalje svo einhver dæmi séu tekin.
Andskotinn og smáatriðin
En andskotinn leynist í smáatriðunum. Eins og bent var á í umfjöllun blaðsins í febrúar þá munu breytingarnar auka eiginfjárbindingu banka vegna húsnæðislána með hærra veðhlutfall en 76% og munu því hækka útlánsvexti til þeirra sem eru með minna eigið fé en gengur og gerist. Með öðrum orðum munu kjör eignaminnstu viðskiptabankanna versna enn frekar. Einnig mun innleiðingin hafa umtalsverð áhrif á framkvæmdalán banka til byggingar íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hér á landi. Að öllu öðru óbreyttu munu breytingarnar leiða til enn frekari hækkunar byggingarkostnaðar vegna dýrari lánsfjármögnunar, en því til viðbótar kann framboð á nýbyggingum að dragast saman vegna hertra skilyrða um eiginfjármögnun.
En í heildina mun innleiðingin lækka áhættuvogir íslensku viðskiptabankanna um tuttugu milljarða og ætti það að minnka fjárbindingu þeirra á móti fasteignalánum um einn milljarð.
Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu Viðskiptablaðinu sem kom út 21. maí 2025. Áskrifendur geti lesið umfjöllunina í heild hér.