Fjárfestahópur leiddur af Stoðum og framtakssjóðurinn Umbreytingu II sem stýrt er af Alfa Framtaki eiga í viðræðum um kaup á Algalífi af norskum eigendum félagsins samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.'

Algalíf, sem stofnað var árið 2012 og rekur örþörungaverksmiðju við Ásbrú á Reykjanesi, hefur frá upphafi verið í norskri eigu. Margfalda framleiðslugetuna Orri Björnsson, forstjóri Algalíf, sagði í viðtali við Morgunblaðið í febrúar að norskir eigendur félagsins væru opnir fyrir því að selja Íslendingum reksturinn.

„Þeir eru opnir fyrir því að fá inn nýja aðila, jafnvel að selja fyrirtækið í heild sinni. Þeir voru með talsverðan rekstur í Noregi sem þeir luku við að selja í fyrra. Þeir eru búnir að gera sitt og eru tilbúnir til að slaka á,“ sagði Orri við Morgunblaðið í febrúar.

Algalíf framleiðir fæðubótarefnið astaxanthín úr örþörungum. Félagið hefur staðið í fjögurra milljarða króna framkvæmdum við stækkun á verksmiðjunni við Ásbrú sem ráðgert er að verði lokið á næsta ári. Við það mun framleiðslugeta félagsins aukast úr 1.500 kílóum á ári í um 5.000 kíló og ráðgert er að veltan muni að sama skapi aukast úr um 1,5 milljörðum króna á ári í um fimm milljarða króna.

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.