Stoðir mun leggja landeldisfyrirtækini First Water til tvo milljarða króna til viðbótar við fyrri fjárfestingu í félaginu í yfirvofandi hlutafjáraukningu. 34,77% eignarhlutur Stoða í First Water er metinn á 9,8 milljarða króna sem samsvarar 28,2 milljarðra króna hlutafjárvirði félagsins.
Þetta kemur fram í bréfi Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða, til hluthafa. Þar segir jafnframt að First Water vinni nú með fjárfestingabankanum Lazard að því að fá inn erlenda fjárfesta að félaginu en í millitíðinni sé gert ráð fyrir hlutafjáraukningu meðal núverandi hluthafa til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu. Stoðir muni sem fyrr fylgja eftir sinni fjárfestingu með þátttöku í hlutafjáraukningunni.
„Uppbygging First Water hefur haldið áfram af fullum krafti. Verkefnið er risavaxið á alla mælikvarða sem gerir það í senn bæði mjög spennandi og krefjandi. Fjármögnun félagsins er stöðugt verkefni og verður það áfram næstu árin á sama tíma og við byggjum eina stærstu landeldisstöð í heimi og ölum fisk. Félagið hefur nú þegar framleitt og selt tæplega 2.000 tonn af laxi, sem er gott út af fyrir sig en auðvitað aðeins lítið brot af því sem verður eftir 5 ár þegar um 50.000 tonna árlegri afkastagetu verður náð. Það glittir í mikilvægan áfanga síðsumars á þessu ári þegar gert er ráð fyrir að við náum í fyrsta skipti að ala upp heilan árgang af 5 kg. laxi,“ skrifar Jón.
Eins og fyrr segir meta Stoðir eignarhlut sinn í First Water á 9,8 milljarða og hélst óbreytt í ársuppgjöri félagsins. Meginástæðan sé fyrrgreind hlutafjáraukning, bæði á meðal hluthafa og erlendra fjárfesta. Þrátt fyrir að mat Stoða sé að veruleg verðmætaaukning hafi átt sér stað á árinu - og það stutt af mati fjárfestingarbankans Lazard - sé talið rétt að bíða niðurstöðu framangreindra hlutafjáraukninga.
Lóðin á stærð við 75 fótboltavelli
„Á árinu 2024 náðust margir mikilvægir áfangar. Félagið náði að slátra 1.291 tonnum af laxi og er þá heildarslátrun frá upphafi orðin 1.758 tonn. Það hefur gengið vel að selja laxinn erlendis og er um 94% af honum í hæsta gæðaflokki. Með aukinni framleiðslu þarf að efla sölustarf félagsins enn frekar en unnið er að því að afla viðskiptavina í Evrópu og Bandaríkjunum.
Fjárfest var á árinu fyrir 8,5 milljarða króna í innviðum í Þorlákshöfn við uppbyggingu á fyrsta fasa af sex sem á að afkasta 8.300 tonnum árlega. Heildarfjárfesting í verkefninu er því komin yfir 20 milljarða króna. Um er að ræða gríðarlega stórt byggingaverkefni eins og áður hefur verið fjallað um en til dæmis má nefna að lóðin sem uppbyggingin fer fram á jafngildir 75 fótboltavöllum í fullri stærð,“ segir í bréfinu.
Í bréfi til hluthafa fyrir ári síðan hafi komið fram að væntingar væru um að það tækist að ala upp heila kynslóð af 5 kílóa fiski á árinu 2024. Það hafi því miður ekki gengið eftir en eins og gengur í verkefnum sem þessum hafi orðið ákveðin töf á uppbyggingu á stærri kerum sem nauðsynleg séu fyrir eldi á svo stórum fiski. „Var töfin að hluta vegna breytinga sem gera þurfti á hönnun til að tryggja enn betur rekstraröryggi starfseminnar. Er nú gert ráð fyrir að ná þessum 5 kg. áfanga síðsumars 2025 en æskilegt er að ná að ala upp fisk í þá stærð til að hámarka framleiðsluverðmæti.“
Það hafi verið bæði gaman og áhugavert en á sama tíma krefjandi að koma að svo stóru uppbyggingaverkefni. Til upprifjunar sé gert ráð fyrir að búið verði að fjárfesta fyrir 115 milljarða króna árið 2030 þegar starfsemin hafi náð fullri stærð.
„Um verður að ræða eitt stærsta fyrirtæki landsins, hvort sem litið er til fjárfestingar, veltu, afkomu eða starfsmannafjölda. Það er því mikilvægt að vanda til verka.“