Þrjú stærstu endurskoðunar- og bókhaldsfyrirtæki landsins, Deloitte, KPMG og Pricewaterhouse Coopers (PwC), veltu alls 16,6 milljörðum króna á síðasta rekstrarári. Til samanburðar námu heildartekjur fyrirtækjanna þriggja 14,3 milljörðum rekstrarárið á undan og nam tekjuaukningin því 16%. Þá nam hagnaður félaganna alls 1,9 milljörðum króna á síðasta rekstrarári og jókst um 15% frá fyrra rekstrarári.

Í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem kom út í síðustu viku, er meðal annars að finna greiningu á endurskoðunar- og bókhaldsgeiranum. Þar má sjá að heildarvelta tíu stærstu fyrirtækjanna í geiranum nam alls 20,5 milljörðum króna á síðasta rekstrarári. Til samanburðar nam heildarvelta 18 milljörðum króna rekstrarárið á undan.

Umrædd þrjú stærstu fyrirtæki geirans stóðu því undir 81% af heildarveltu tíu stærstu fyrirtækja geirans. Þá stóðu fyrirtækin einnig undir 81% af heildarhagnaði tíu stærstu endurskoðunar- og bókhaldsfyrirtækja landsins.

Endurskoðun og ráðgjöf með hæsta hagnaðarhlutfallið

Samkvæmt fyrrnefndum lista 500 stærstu var Grant Thornton endurskoðun fjórða stærsta endurskoðunar- og bókhaldsfyrirtæki landsins á síðasta rekstrarári en félagið velti 647 milljónum og hagnaðist um 131 milljón. Þar af leiðandi var félagið með hagnaðarhlutfall upp á 20,3%. Tvö önnur félög voru með hærra hagnaðarhlutfall en það voru Regla, með 22% hagnaðarhlutfall, og Endurskoðun og ráðgjöf sem voru með hæsta hagnaðarhlutfallið, 25,3%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.