Skuldabréfafjárfestar í Evrópu virðast vera með öll augu á innsetningarathöfn Donald Trump sem fer fram klukkan fimm á íslenskum tíma, samkvæmt viðskiptablaði The Guardian.
Ávöxtunarkrafa þýskra ríkisskuldabréfa til tíu ára, sem er viðmiðið fyrir evrusvæðið, hefur hækkað um 1 punkt í viðskiptum dagsins og stendur í 2,514% sem er töluvert undir þeim hæðum sem krafan náði í síðustu viku.
Töluverður söluþrýstingur á þýskum bréfum ýtti kröfunni á tíu ára bréfunum í 2,630% í síðustu viku. Ávöxtunarkrafa ítalskra bréfa til tíu ára hefur einnig hækkað um 1 punkt í viðskiptum og stendur í 3,655%.
Markaðir eru lokaðir í Bandaríkjunum í dag vegna minningardags Martins Luther King.
Ávöxtunarkrafa breskra ríkisskuldabréfa til tíu ára fór í 4,695% sem er einnig undir 4,8% sem krafan fór í 8. janúar.
Krafan á bresk ríkisbréf hækkaði til muna í byrjun árs og olli því að fjármögnunarkostnaður breska ríkisins fór upp úr öllu valdi og setti mikinn þrýsting á Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands.