Gengi krónunnar hækkaði um 4% frá upp­hafi til loka ársins 2024 sam­kvæmt yfir­liti Seðla­banka Ís­lands um gjald­eyris­markað, gengisþróun og gjald­eyris­forða á árinu.

Heildar­velta á milli­banka­markaði með gjald­eyri nam 216,3 milljörðum eða 1,5 milljörðum evra á árinu 2024, sem er rúm­lega 10% minni velta en árið á undan. Veltan hefur ekki verið minni á markaðnum á einu ári síðan 2019. Hlut­deild Seðla­bankans í veltunni nam 4,2% saman­borið við 2,3% árið á undan.

„Stöðug­leiki ein­kenndi gjald­eyris­markaðinn lengst af eða þar til í ágúst, þegar gengið lækkaði, en í septem­ber tók krónan að styrkjast og hélt sú þróun áfram fram undir lok árs. Seðla­bankinn greip einu sinni inn í gjald­eyris­markaðinn þegar hann keypti gjald­eyri fyrir um 9,2 ma.kr. í febrúar til að bregðast við inn­flæði er­lends fjár­magns í ríkis­skulda­bréf,“ segir í skýrslu SÍ.

Vaxta­munur við útlönd var áfram nokkur og er­lendir aðilar keyptu meira af inn­lendum ríkis­skulda­bréfum en árið á undan.

Líf­eyris­sjóðir voru áfram um­fangs­miklir kaup­endur gjald­eyris og jukust kaup þeirra lítil­lega milli ára. Hrein staða fram­virkra gjald­miðla­samninga við­skipta­banka lækkaði yfir árið í heild.

Við­skipti í tengslum við yfir­töku­til­boð John Bean Technologies (JBT) á Marel höfðu áhrif á gjald­eyris­markaðinn á árinu, en yfir­takan var stór á ís­lenskan mæli­kvarða.

Ríkis­sjóður gaf tvívegis út skulda­bréf í evrum á árinu, sam­tals að fjár­hæð 800 milljónir evra og vaxtaálag á er­lendar skulda­bréfaút­gáfur ríkis­sjóðs og við­skipta­bankanna lækkaði.

Gjald­eyris­forði Seðla­bankans nam 886 milljörðum í árs­lok eða 20% af vergri lands­fram­leiðslu. Gjald­eyris­forðinn var um 96 milljörðum króna meiri en árið á undan.

„Þó nokkur gjald­eyris­við­skipti voru á fyrsta árs­fjórðungi í tengslum við kaup er­lendra aðila á ríkis­skulda­bréfum. Minna var um slík við­skipti á öðrum og þriðja fjórðungi þar til á haust­dögum, þegar staða þeirra fór að aukast á ný. Vaxta­munur á milli Ís­lands og annarra landa var áfram nokkur á árinu og um haustið höfðu stærstu seðla­bankar heims lækkað vexti sína. Auk þess tóku um­svif í ferðaþjónustu við sér á ný á þriðja árs­fjórðungi,” segir í skýrslu SÍ.

Um miðjan nóvember styrktist gengi krónunnar tölu­vert en fjár­festing er­lendra aðila í hluta­bréfum Marels í að­draganda yfir­töku bandaríska fyrir­tækisins JBT á félaginu hafði þar vafa­laust áhrif.

Yfir­töku­til­boð JBT var samþykkt af hlut­höfum Marels í desember og fór upp­gjör við­skiptanna fram í byrjun árs 2025.

Segir SÍ að við­skiptin voru um­fangs­mikil á ís­lenskan mæli­kvarða og fylgdi þeim tölu­vert inn­flæði á er­lendum gjald­eyri til inn­lendra hlut­hafa, að stórum hluta til líf­eyris­sjóða.