Gengi krónunnar hækkaði um 4% frá upphafi til loka ársins 2024 samkvæmt yfirliti Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismarkað, gengisþróun og gjaldeyrisforða á árinu.
Heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam 216,3 milljörðum eða 1,5 milljörðum evra á árinu 2024, sem er rúmlega 10% minni velta en árið á undan. Veltan hefur ekki verið minni á markaðnum á einu ári síðan 2019. Hlutdeild Seðlabankans í veltunni nam 4,2% samanborið við 2,3% árið á undan.
„Stöðugleiki einkenndi gjaldeyrismarkaðinn lengst af eða þar til í ágúst, þegar gengið lækkaði, en í september tók krónan að styrkjast og hélt sú þróun áfram fram undir lok árs. Seðlabankinn greip einu sinni inn í gjaldeyrismarkaðinn þegar hann keypti gjaldeyri fyrir um 9,2 ma.kr. í febrúar til að bregðast við innflæði erlends fjármagns í ríkisskuldabréf,“ segir í skýrslu SÍ.
Vaxtamunur við útlönd var áfram nokkur og erlendir aðilar keyptu meira af innlendum ríkisskuldabréfum en árið á undan.
Lífeyrissjóðir voru áfram umfangsmiklir kaupendur gjaldeyris og jukust kaup þeirra lítillega milli ára. Hrein staða framvirkra gjaldmiðlasamninga viðskiptabanka lækkaði yfir árið í heild.
Viðskipti í tengslum við yfirtökutilboð John Bean Technologies (JBT) á Marel höfðu áhrif á gjaldeyrismarkaðinn á árinu, en yfirtakan var stór á íslenskan mælikvarða.
Ríkissjóður gaf tvívegis út skuldabréf í evrum á árinu, samtals að fjárhæð 800 milljónir evra og vaxtaálag á erlendar skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs og viðskiptabankanna lækkaði.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 886 milljörðum í árslok eða 20% af vergri landsframleiðslu. Gjaldeyrisforðinn var um 96 milljörðum króna meiri en árið á undan.
„Þó nokkur gjaldeyrisviðskipti voru á fyrsta ársfjórðungi í tengslum við kaup erlendra aðila á ríkisskuldabréfum. Minna var um slík viðskipti á öðrum og þriðja fjórðungi þar til á haustdögum, þegar staða þeirra fór að aukast á ný. Vaxtamunur á milli Íslands og annarra landa var áfram nokkur á árinu og um haustið höfðu stærstu seðlabankar heims lækkað vexti sína. Auk þess tóku umsvif í ferðaþjónustu við sér á ný á þriðja ársfjórðungi,” segir í skýrslu SÍ.
Um miðjan nóvember styrktist gengi krónunnar töluvert en fjárfesting erlendra aðila í hlutabréfum Marels í aðdraganda yfirtöku bandaríska fyrirtækisins JBT á félaginu hafði þar vafalaust áhrif.
Yfirtökutilboð JBT var samþykkt af hluthöfum Marels í desember og fór uppgjör viðskiptanna fram í byrjun árs 2025.
Segir SÍ að viðskiptin voru umfangsmikil á íslenskan mælikvarða og fylgdi þeim töluvert innflæði á erlendum gjaldeyri til innlendra hluthafa, að stórum hluta til lífeyrissjóða.