Félagið Prófíll tannréttingar, sem er í eigu Berglindar Jóhannsdóttur, hagnaðist mest allra samlags- og sameignarfélaga á sviði tannlækninga í fyrra en samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins nam hagnaðurinn 100 milljónum króna og launagreiðslur námu 120 milljónum. Er það aukning frá árinu 2022, þegar hagnaður nam 85 milljónum.
Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti á dögunum.
Félag Hrannar Róbertsdóttur, Brosið Heilsuklíník, hagnaðist næst mest í flokki tannlækna en hagnaður ársins 2023 nam 92 milljónum og launagreiðslur námu 161 milljón. Er það eilítið minni hagnaður en árið 2022.
Þrjú félög til viðbótar skiluðu meira en 50 milljóna króna hagnaði í fyrra. Kuti slf., í eigu Sævars Péturssonar, hagnaðist um 89 milljónir, hagnaður Breiðaklappar, sem er í eigu Júlíusar Helga Schopka, nam 86 milljónum, og Ortho, í eigu Stefáns Reynis Pálssonar og Ernu Bjargar Sigurðardóttur, skilaði 66 milljóna hagnaði.
Samanlagt nam hagnaður 40 afkomuhæstu félaga tannlækna á listanum rúmlega 1,2 milljörðum króna, sem er aukning um 6% milli ára, og launagreiðslur námu tæplega 1,9 milljörðum, sem er aukning um 7%.
Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í vikunni nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.
Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.