Verulegur söluþrýstingur var á vaxtarfélögum í Kauphöllinni í dag og lækkaði úrvalsvísitalan OMXI15 um 4%. Vísitalan hefur nú fallið um rúm 20% frá áramótum, sem endurspeglar vaxandi varfærni fjárfesta á tímum aukinnar óvissu í alþjóðaviðskiptum.
Líftæknifyrirtækið Alvotech, málmleitarfélagið Amaroq og augnlyfjafélagið Oculis leiddu lækkanir dagsins ásamt JBT Marel, sem er með tvískráningu á Íslandi og í Bandaríkjunum og rekur þar umtalsverða starfsemi.
Hlutabréf Alvotech féllu um 11,5% í dag og lauk viðskiptum á 1.000 krónum á hlut – lægsta gildi síðan í júlí í fyrra. Gengi félagsins hefur nú lækkað um tæp 44% frá áramótum.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum hafa innflutningstollar Donald Trump Bandaríkjaforseta ekki áhrif á Alvotech þrátt fyrir að lyf félagsins séu framleidd hérlendis og seld í Bandaríkjunum þar sem lyf og lækningavörur eru undanskilin tollum Trump.
Trump daðraði við hugmyndina um að leggja tolla á lyf í gærkvöldi í þeirri von um að flytja lyfjaframleiðslu aftur „heim“ til Bandaríkjanna þrátt fyrir að slíkt gæti tekið allt að tíu ár vegna strangra krafna frá Matvæla og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) um að framleiðsluaðstöður sem þurfa að standast viðamiklar skoðanir og prófanir áður en framleiðsla fær leyfi til dreifingar.
Í samtali við Viðskiptablaðið í dag sagði Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, að hann hefði engar áhyggjur af stöðu félagsins þrátt fyrir yfirlýsingar Trumps þar sem tollar á lyfjaframleiðslu myndu að öllum líkindum leiða til verulegs lyfjaskorts í Bandaríkjunum.
Það er því ólíklegt að ummæli Trumps eða tollar hans, sem hafa ekki áhrif á lyfjaframleiðslu, séu að ýta undir lækkanir Alvotech. Það má fremur leiða líkur að því að áhættufælni fjárfesta hérlendis sé að aukast og því er mikill söluþrýstingur á vaxtafélögin í kauphöllinni.
Hlutabréf Amaroq, sem á umfangsmikil námuvinnslu- og rannsóknarleyfi í Grænlandi, lækkuðu um 7,5% og enduðu daginn í 115,5 krónum. Gengi félagsins hefur lækkað um tæp 29% á síðastliðnum mánuði og 37% frá sama tíma í fyrra. Þetta er lægsta dagslokagengi félagsins frá september 2023.
Dagslokagengi Amaroq var 115,5 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í september í fyrra.
Oculis, sem þróar lyf við augnsjúkdómum og er skráð bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum, lækkaði einnig um 7,5% í dag. Gengi félagsins stóð í 1.860 krónum við lokun, sem er þó enn yfir útboðsgengi þess í apríl í fyrra. Gengi félagsins hefur þó lækkað um 25,6% á síðastliðnum mánuði.
Oculis vinnur nú að undirbúningi umsóknar til FDA um markaðsleyfi fyrir OCS-01, augndropa til meðferðar við sjónhimnubjúg. Lyfið hefur einnig notkun við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir og hefur verið lýst sem byltingarkenndri nýjung. Einkaleyfi Oculis á lyfinu gildir til ársins 2040.
Fimm félög hafa lækkað yfir 30% á árinu
Fimm félög á aðalmarkaði hafa nú lækkað um meira en 30% frá áramótum: Alvotech, Amaroq, Play, JBT Marel og Icelandair.
Heildarvelta í Kauphöllinni í dag nam 5,7 milljörðum króna.