Veru­legur söluþrýstingur var á vaxtarfélögum í Kaup­höllinni í dag og lækkaði úr­vals­vísi­talan OMXI15 um 4%. Vísi­talan hefur nú fallið um rúm 20% frá áramótum, sem endur­speglar vaxandi varfærni fjár­festa á tímum aukinnar óvissu í alþjóða­við­skiptum.

Líftækni­fyrir­tækið Al­vot­ech, málm­leitarfélagið Amaroq og augn­lyfjafélagið Ocu­lis leiddu lækkanir dagsins ásamt JBT Marel, sem er með tvískráningu á Ís­landi og í Bandaríkjunum og rekur þar um­tals­verða starf­semi.

Hluta­bréf Al­vot­ech féllu um 11,5% í dag og lauk við­skiptum á 1.000 krónum á hlut – lægsta gildi síðan í júlí í fyrra. Gengi félagsins hefur nú lækkað um tæp 44% frá áramótum.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá á dögunum hafa inn­flutnings­tollar Donald Trump Bandaríkja­for­seta ekki áhrif á Al­vot­ech þrátt fyrir að lyf félagsins séu fram­leidd hér­lendis og seld í Bandaríkjunum þar sem lyf og lækninga­vörur eru undan­skilin tollum Trump.

Trump daðraði við hug­myndina um að leggja tolla á lyf í gærkvöldi í þeirri von um að flytja lyfja­fram­leiðslu aftur „heim“ til Bandaríkjanna þrátt fyrir að slíkt gæti tekið allt að tíu ár vegna strangra krafna frá Mat­væla og lyfja­eftir­liti Bandaríkjanna (FDA) um að fram­leiðslu­aðstöður sem þurfa að standast viða­miklar skoðanir og prófanir áður en fram­leiðsla fær leyfi til dreifingar.

Í sam­tali við Við­skipta­blaðið í dag sagði Róbert Wess­man, for­stjóri og stofnandi Al­vot­ech, að hann hefði engar áhyggjur af stöðu félagsins þrátt fyrir yfir­lýsingar Trumps þar sem tollar á lyfja­fram­leiðslu myndu að öllum líkindum leiða til veru­legs lyfja­skorts í Bandaríkjunum.

Það er því ólík­legt að um­mæli Trumps eða tollar hans, sem hafa ekki áhrif á lyfja­fram­leiðslu, séu að ýta undir lækkanir Al­vot­ech. Það má fremur leiða líkur að því að áhættu­fælni fjár­festa hér­lendis sé að aukast og því er mikill söluþrýstingur á vaxtafélögin í kaup­höllinni.

Hluta­bréf Amaroq, sem á um­fangs­mikil námu­vinnslu- og rannsóknar­leyfi í Græn­landi, lækkuðu um 7,5% og enduðu daginn í 115,5 krónum. Gengi félagsins hefur lækkað um tæp 29% á síðastliðnum mánuði og 37% frá sama tíma í fyrra. Þetta er lægsta dagsloka­gengi félagsins frá septem­ber 2023.

Dagsloka­gengi Amaroq var 115,5 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í septem­ber í fyrra.

Ocu­lis, sem þróar lyf við augn­sjúk­dómum og er skráð bæði á Ís­landi og í Bandaríkjunum, lækkaði einnig um 7,5% í dag. Gengi félagsins stóð í 1.860 krónum við lokun, sem er þó enn yfir út­boðs­gengi þess í apríl í fyrra. Gengi félagsins hefur þó lækkað um 25,6% á síðastliðnum mánuði.

Ocu­lis vinnur nú að undir­búningi um­sóknar til FDA um markaðs­leyfi fyrir OCS-01, augn­dropa til með­ferðar við sjón­himnu­bjúg. Lyfið hefur einnig notkun við bólgu og verkjum eftir augnað­gerðir og hefur verið lýst sem byltingar­kenndri nýjung. Einka­leyfi Ocu­lis á lyfinu gildir til ársins 2040.

Fimm félög hafa lækkað yfir 30% á árinu

Fimm félög á aðal­markaði hafa nú lækkað um meira en 30% frá áramótum: Al­vot­ech, Amaroq, Play, JBT Marel og Icelandair.

Heildar­velta í Kaup­höllinni í dag nam 5,7 milljörðum króna.