Stjórnvöld í Singapúr ætla að standa í vegi fyrir kaupum þýska tryggingafyrirtækisins Allianz á 51% hlut í singapúrska tryggingafélaginu Income Insurance.

Edwin Tong, ráðherra menningar, samfélags og æsku í Singapúr segir stjórnvöld hafa kafað ofan í viðskiptin og komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki almenningi til heilla að hleypa þeim í gegn miðað við núverandi forsendur.

Ráðherrann er ekki sannfærður um að Income geti uppfyllt samfélagslegar skyldur sínar verði af kaupunum. Hann bendir á að Income hafi árið 1970 verið stofnað sem félagslegt fyrirtæki sem býður landsmönnum upp á tryggingar sem eru aðgengilegar öllum.

Í júlí greindi Allianz frá áformum um kaup á 51% hlut í Income fyrir um 1,7 milljarða dala. Þrátt fyrir að viðskiptin fari ekki í gegn á þeim forsendum segir Tong stjórnvöld opin fyrir aðkomu Allianz eða annarra aðila að rekstri tryggingafélagsins, svo lengi sem tekið verði tillit til fyrrgreindra athugasemda ráðherrans.