Indónesía hefur stöðvað sölu á iPhone 16, nýjasta snjallsíma Apple, þar sem tæknifyrirtækið hefur ekki uppfyllt kröfur stjórnvalda um fjárfestingu í landinu. Ákvörðunin hefur ekki áhrif ‏á aðrar vörur Apple.

Símamarkaðurinn í Indónesíu, stærsta hagkerfi Suðaustur-Asíu, getur reynst mjög mikilvægur vegna mikils og vaxandi mannfjölda auk þess sem kaupmáttur fer vaxandi, að því er segir í frétt Wall Street Journal.

Iðnaðarráðherrann Agus Gumiwang Kartasasmita, sagði við ríkisfjölmiðilinn Antara að fjárfesting Apple í Indónesíu væri 240 milljörðum rúpía undir því 1,71 þúsund milljarða rúpía skilyrði, eða sem nemur 109 milljónum dala, til að viðhalda leyfi til að selja iPhone 16 símana í landinu.

Umrædd stefna, sem er ætlað að styðja við innlenda iðnaðarframleiðslu, felur í sér að fyrirtæki þurfa að uppfylla skilyrði um að nota vörur eða þjónustu í Indónesíu. Innflutningsaðilar geta uppfyllt þessi skilyrði m.a. með fjárfestingum eða að ráða innlenda verkamenn.

Ofangreint bann nær aðeins til iPhone 16 sem verslað er með innlands en neytendur geta áfram keypt símana erlendis og tekið þá með sér heim, svo lengi sem nota símana í persónulegum tilgangi en selja þá ekki áfram.

Ráðuneytið áætlar að um 9 þúsund iPhone 16 símar hafa farið um landamærin á lögmætan máta.