Endurkoma Donald Trump til Hvíta hússins hefur skapað mikla óvissu um framtíð yfir 300 milljarða dala alríkisfjármögnunar á innviðaverkefnum í Bandaríkjunum.
Samkvæmt Financial Times óttast fjárfestar að umfangsmiklar framkvæmdir í tengslum við græn orkuskipti verði settar á ís, þar sem ný ríkisstjórn hefur hafist handa við að snúa við stefnu Joe Biden.
Strax á fyrsta degi í embætti undirritaði Trump fjölda forsetatilskipana, þar á meðal eina sem stöðvar greiðslur frá ríkinu til framleiðenda og framkvæmdaaðila á innviðum.
Þetta hefur áhrif á fjármuni sem veittir voru samkvæmt tveimur helstu lagafrumvörpum Biden, lögum til að ná niður verðbólgunni (Inflation Reduction Act) og frumvarpi um innviðauppbyggingu, sem naut stuðnings beggja flokka í þinginu.
Samkvæmt greiningu Financial Times er um að ræða nærri 50 milljarða dala lán sem þegar hefur verið samþykkt af Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna og 280 milljarða dala beiðnir sem eru í vinnslu.
Stór verkefni í hættu
Meðal þeirra verkefna sem strax hafa lent í óvissu eru 9 milljarða dala lán til orkufyrirtækisins DTE Energy í Michigan og 3,5 milljarða dala lán til PacifiCorp í Oregon.
PacifiCorp staðfesti við FT að fyrirtækið væri að vinna með ráðuneytinu að skilyrðum lánatrygginga, en DTE Energy hefur ekki tjáð sig.
„Ef þú ert með styrki, lánatryggingar eða fjármögnun sem tengdist verðbólgulögunum og peningarnir hafa ekki verið greiddir út enn þá, er ólíklegt að það gerist undir stjórn Trump,“ segir Rob Barnett, sérfræðingur hjá Bloomberg Intelligence.
Áhrif á græna orku
Forsetatilskipanirnar hafa valdið ólgu á markaði með hreina orku og skaðað traust fjárfesta til stefnu Bandaríkjanna í orkuskiptum. Fjárfestar óttast einnig að 300 milljarða dala fjármögnun, einkum úr innviðalögunum, verði nú frystir.
„Þessar ákvarðanir gera það erfiðara að fá aðgang að alríkisfjármagni fyrir framleiðslu á rafhlöðum og rafbílum, sem eykur áhættu fyrir verkefni sem þegar eru komin af stað,“ segir Shay Natarajan hjá fjárfestingarsjóði Mobility Impact Partners.
Vaxandi óvissa
Framleiðendur á borð við Tesla, Rivian og danska fyrirtækið Ørsted urðu fyrir skarpri lækkun á hlutabréfaverði í kjölfar yfirlýsinga Trump, sem meðal annars tilkynnti að hann hygðist stöðva uppbyggingu vindorkuvera á landi í eigu ríkisins.
Í þessari viku tilkynnti ítalski framleiðandinn Prysmian Group að hann hætti við áform um byggingu verksmiðju í Massachusetts, sem átti að framleiða kapla fyrir vindorkugeirann. Einnig hefur þýska fyrirtækið RWE dregið úr starfsemi sinni á sviði vindorku í Bandaríkjunum.
Samkvæmt nýjustu tölum Rystad Energy er ólíklegt að 25 GW af vindorkuverkefnum í Bandaríkjunum – 65% verkefna í þróun – verði framkvæmd undir stjórn Trump.
„Þegar fjárfestar skynja skort á stöðugleika í bandarískum orkumarkaði hefur það langtíma neikvæð áhrif á getu okkar til að laða fjármagn að,“ segir Eli Hinckley, sérfræðingur hjá lögmannsstofunni Baker Botts.