Við­skipti með kín­versk ríkis­skulda­bréf til þrjá­tíu ára voru stöðvuð í tví­gang í gær vegna „ó­eðli­legra hreyfinga“ en að sögn Financial Times var mikil eftir­vænting eftir skráningu skulda­bréfanna.

Kín­verska ríkið stefnir að því að selja skulda­bréf frá 20 til 50 ára fyrir eina billjón (e. trillion) júan eða um 19 þúsund milljarða ís­lenskra króna á árinu til að reyna ýta undir vöxt í hag­kerfinu.

Fyrstu skulda­bréfin fóru á markað í gær í kaup­höllunum í Sjang­haí og Shenz­hen í gær en hingað til hefur kín­verska ríkið einungis selt skulda­bréf í gegnum banka. Al­menningur í Kína hafði því greiðari að­gang að bréfunum en áður.

Á­vöxtunar­krafa skulda­bréfsins til 30 ára var 2,57% við opnun en rauk upp um 13% við opnun áður en við­skipti voru stöðvuð.

Krafan hækkaði síðar um 25% um miðjan daginn áður en Kaup­höllin í Sjang­haí stöðvaði við­skipti í seinna skipti. Krafan féll þegar leið á daginn og lokaði um 1,3% hærri. Sömu sögu var að segja í Kaup­höllinni í Shenz­hen er krafan þar endaði um 20% hærri við lokun.

Í sam­eigin­legri yfir­lýsingu kaup­hallanna tveggja voru fjár­festar á­minntir um að „fjár­festa skyn­sam­lega“ og hafa á­hættu­þætti á­vallt í huga.

Sam­kvæmt FT eru al­mennir fjár­festir æstir í skulda­bréfin þar sem krísan á fast­eigna­markaði í Kína hefur haft nei­kvæð á­hrif á hluta­bréfa­markaði landsins. Vextir á við­skipta­reikningum inn­lána­stofnanna hafa einnig verið að lækka og því fer tæki­færum Kín­verja til á­vaxta fé fækkandi.

Fram­kvæmda­stjóri eigna­stýringar­deildar hjá ríkis­reknu verð­bréfa­fyrir­tæki í Kína, segir í sam­tali við FT að al­menningur sé að reyna koma fjár­munum sínum í skjól. „Al­mennir fjár­festar hafa nær aldrei haft að­gengi að ríkis­skulda­bréfum og því er þessi út­gáfa að bjóða þeim upp á ein­stakt fjár­festinga­tæki­færi.“

Eftir­spurn í bréfin hefur komið flestum fjár­mála­stofnunum landsins að ó­vörum en fjár­mála­ráðu­neytið í Kína mun hefja sölu á 40 milljarða júan skulda­bréf til 20 ára á föstu­daginn og munu við­skipti með bréfin hefjast á mið­viku­daginn næsta.