Viðskipti með kínversk ríkisskuldabréf til þrjátíu ára voru stöðvuð í tvígang í gær vegna „óeðlilegra hreyfinga“ en að sögn Financial Times var mikil eftirvænting eftir skráningu skuldabréfanna.
Kínverska ríkið stefnir að því að selja skuldabréf frá 20 til 50 ára fyrir eina billjón (e. trillion) júan eða um 19 þúsund milljarða íslenskra króna á árinu til að reyna ýta undir vöxt í hagkerfinu.
Fyrstu skuldabréfin fóru á markað í gær í kauphöllunum í Sjanghaí og Shenzhen í gær en hingað til hefur kínverska ríkið einungis selt skuldabréf í gegnum banka. Almenningur í Kína hafði því greiðari aðgang að bréfunum en áður.
Ávöxtunarkrafa skuldabréfsins til 30 ára var 2,57% við opnun en rauk upp um 13% við opnun áður en viðskipti voru stöðvuð.
Krafan hækkaði síðar um 25% um miðjan daginn áður en Kauphöllin í Sjanghaí stöðvaði viðskipti í seinna skipti. Krafan féll þegar leið á daginn og lokaði um 1,3% hærri. Sömu sögu var að segja í Kauphöllinni í Shenzhen er krafan þar endaði um 20% hærri við lokun.
Í sameiginlegri yfirlýsingu kauphallanna tveggja voru fjárfestar áminntir um að „fjárfesta skynsamlega“ og hafa áhættuþætti ávallt í huga.
Samkvæmt FT eru almennir fjárfestir æstir í skuldabréfin þar sem krísan á fasteignamarkaði í Kína hefur haft neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaði landsins. Vextir á viðskiptareikningum innlánastofnanna hafa einnig verið að lækka og því fer tækifærum Kínverja til ávaxta fé fækkandi.
Framkvæmdastjóri eignastýringardeildar hjá ríkisreknu verðbréfafyrirtæki í Kína, segir í samtali við FT að almenningur sé að reyna koma fjármunum sínum í skjól. „Almennir fjárfestar hafa nær aldrei haft aðgengi að ríkisskuldabréfum og því er þessi útgáfa að bjóða þeim upp á einstakt fjárfestingatækifæri.“
Eftirspurn í bréfin hefur komið flestum fjármálastofnunum landsins að óvörum en fjármálaráðuneytið í Kína mun hefja sölu á 40 milljarða júan skuldabréf til 20 ára á föstudaginn og munu viðskipti með bréfin hefjast á miðvikudaginn næsta.