Íslandssjóðir hafa stofnað sjóðinn IS Haf fjárfestingar slhf. sem fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni. Sjóðurinn er 10 milljarðar að stærð, að fullu fjármagnaður og hefur þegar tekið til starfa.

Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru íslenskir lífeyrissjóðir ásamt Brimi og Útgerðarfélagi Reykjavíkur sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum. Fjárfestum sjóðsins verður boðið að meðfjárfesta (e. co-invest) samhliða sjóðnum í einstökum fjárfestingarverkefnum.

Ráðgjafasamningur er á milli Íslandssjóða, rekstraraðila sjóðsins og Útgerðarfélags Reykjavíkur sem kemur að öflun fjárfestingatækifæra.

Leitast við að vera áhrifafjárfestir

Fjárfest verður að mestu í óskráðum félögum á Íslandi eða félögum sem hafa tengingu við Ísland. Fjárfestingartímabil sjóðsins er 4 ár og heildarlíftími sjóðsins er 9-11 ár.

Fjárfestingum verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni.

„Sjóðurinn leitast við að vera áhrifafjárfestir og styðja við vöxt og framþróun þeirra félaga sem fjárfest verður í og leggur sjóðurinn sterka áherslu á að hafa mælanleg áhrif á þætti sem varða umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS þætti) fyrirtækjanna,“ segir í tilkynningu.

Íslandssjóðir segja að aðgengi að fjárfestingum í sjávarútvegi hafi í gegnum tíðina verið takmarkað. Sjóðurinn opnar því aðgengi fyrir lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að vexti í haftengdri starfsemi.

„Haftengd starfsemi á Íslandi er í hröðum vexti og tækifæri til aukins útflutnings mikil. Áhrif sjóðsins á þann vöxt verða veruleg þar sem um fjárfestingagetu upp á 30-50 milljarða er að ræða þegar tekið er tillit til meðfjárfestinga. Þörf er á að auka samlegð og ná fram frekari stærðarhagkvæmni auk þess að tryggja yfirfærslu á þekkingu meðal fyrirtækja í haftengdri starfsemi. Áfram er öflugt samspil sjávarútvegs- og tæknifyrirtækja forsenda fyrir forskoti Íslands í verðmætasköpun og vexti í greininni,” segir Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga.

„Útgerðarfélag Reykjavíkur telur að gríðarleg tækifæri verði til staðar fyrir íslenskan sjávarútveg á næstu árum. Hafsjór tækifæra fyrir lykilatvinnuveg þjóðarinnar kallar á mikið fjármagn til að styðja við vöxt og nýtingu mögulegra tækifæra. Án fjármagns mun okkur Íslendingum ekki takast að virkja alla þá möguleika sem eru í boði. Sjóðurinn mun verða í lykilhlutverki við að brúa bilið milli fjármagns og vaxtatækifæra okkar allra,“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.