Að minnsta kosti fjögur eignastýringarfyrirtæki, þar á meðal BlackRock og Nuveen, hafa óskað eftir samþykki frá verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC) fyrir því að skrá nýja kauphallarsjóði með lánavafninga (e. collateralized loan obligations) með lánum í ruslflokki.
Gríðarleg ásókn hefur verið í skuldabréf fyrirtækja með lélegt lánshæfismat meðal fagfjárfesta í Bandaríkjunum en samkvæmt The Wall Street Journal er markmiðið með kauphallarsjóðunum að selja almennum fjárfestum lánavafningana.
Fjárfestar sóttu mikið í skuldabréfavafninga (e. collateralized bond obligation) fyrir efnahagshrunið 2008 og þá sér í lagi svokallaða blandaða vafninga sem fengu almenna heitið CDO (e. collateralized debt obligation).
Skuldabréfavafningum er ætlað að mæta greiðslufallsáhættu en er í raun fjöldi lána í ruslflokki pakkað saman.
Svokallaðir lánavafningar (CLO) hafa verið að sækja í sig veðrið í ár og hafa eignarstýringafélög selt hlutdeildarskírteini í slíkum vafningum fyrir 147 milljarða dali í ár sem er hækkun úr 87 milljörðum á sama tímabili í fyrra, samkvæmt PitchBook.
Lánavafningarnir (e. CLO) kaupa í raun skuldabréf í ruslflokki með lánsfé frá fjárfestum. Féð er fengið með útgáfu skuldabréfa með breytilegum vöxtum, þar sem vextirnir eru breytilegir eftir því hversu áhættusöm bréfin eru.
Ástæða þess að fjárfestar eru að sækja í lánavafninga í meiri mæli en áður er vegna þess að þeir skila betri ávöxtun en hefðbundin fyrirtækjaskuldabréf. Ávöxtun á lánavafningi með AAA lánshæfismat er 5,6% um þessar mundir á meðan ávöxtunarkrafa á skuldabréfi fyrirtækja með sama lánshæfismat er 4,8%.
Ávöxtun lánavafninga hefur einnig verið tiltölulega óbreytt þrátt fyrir að seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði vexti í síðasta mánuði.
Samkvæmt WSJ er stærsta áhættan við vafningana að ef það hægist á efnahagsumsvifum í Bandaríkjunum eru fyrirtæki með lélegt lánshæfismat þau fyrstu til að lenda í vanskilum eða eiga erfitt með að endurfjármagna sig.