Að minnsta kosti fjögur eigna­stýringar­fyrir­tæki, þar á meðal BlackRock og Nu­veen, hafa óskað eftir sam­þykki frá verð­bréfa­eftir­liti Banda­ríkjanna (SEC) fyrir því að skrá nýja kaup­hallar­sjóði með lána­vafninga (e. colla­tera­lized loan obligations) með lánum í rusl­flokki.

Gríðar­leg á­sókn hefur verið í skulda­bréf fyrir­tækja með lé­legt láns­hæfis­mat meðal fag­fjár­festa í Banda­ríkjunum en sam­kvæmt The Wall Street Journal er mark­miðið með kaup­hallar­sjóðunum að selja al­mennum fjár­festum lána­vafningana.

Fjár­festar sóttu mikið í skulda­bréfa­vafninga (e. colla­tera­lized bond obligation) fyrir efna­hags­hrunið 2008 og þá sér í lagi svo­kallaða blandaða vafninga sem fengu al­menna heitið CDO (e. colla­tera­lized debt obligation).

Skuldabréfavafningum er ætlað að mæta greiðslufallsáhættu en er í raun fjöldi lána í ruslflokki pakkað saman.

Svo­kallaðir lána­vafningar (CLO) hafa verið að sækja í sig veðrið í ár og hafa eignar­stýringa­fé­lög selt hlut­deildar­skír­teini í slíkum vafningum fyrir 147 milljarða dali í ár sem er hækkun úr 87 milljörðum á sama tíma­bili í fyrra, sam­kvæmt Pitch­Book.

Lána­vafningarnir (e. CLO) kaupa í raun skulda­bréf í rusl­flokki með láns­fé frá fjár­festum. Féð er fengið með út­gáfu skulda­bréfa með breyti­legum vöxtum, þar sem vextirnir eru breyti­legir eftir því hversu á­hættu­söm bréfin eru.

Á­stæða þess að fjár­festar eru að sækja í lána­vafninga í meiri mæli en áður er vegna þess að þeir skila betri á­vöxtun en hefð­bundin fyrirtækjaskulda­bréf. Á­vöxtun á lána­vafningi með AAA láns­hæfis­mat er 5,6% um þessar mundir á meðan á­vöxtunar­krafa á skulda­bréfi fyrir­tækja með sama láns­hæfis­mat er 4,8%.

Á­vöxtun lána­vafninga hefur einnig verið til­tölu­lega ó­breytt þrátt fyrir að seðla­banki Banda­ríkjanna lækkaði vexti í síðasta mánuði.

Sam­kvæmt WSJ er stærsta á­hættan við vafningana að ef það hægist á efna­hags­um­svifum í Banda­ríkjunum eru fyrir­tæki með lé­legt láns­hæfis­mat þau fyrstu til að lenda í van­skilum eða eiga erfitt með að endurfjármagna sig.