Fjármálahlaðvarpið Pyngjan og Revol ehf., sem eru eigendur Facebook hópsins Fyrirtæki til sölu, hafa tekið höndum saman við að gera ferlið að kaupa og selja fyrirtæki betra en það er í dag.

„Það stendur til að fara að erlendri fyrirmynd og umbylta ferlinu fyrir lítil- og meðalstór fyrirtæki að selja og auglýsa reksturinn“ segir Ingvi Þór Georgosson, annar umsjónarmanna Pyngjunnar.

Í tilkynningu segir að Kennitalan.is sé nýr vefur sem veiti þeim sem vilja kaupa og selja fyrirtæki eða rekstrareiningar þægilegt umhverfi til að eiga í samskiptum, staðla upplýsingar úr rekstrinum og minnka tíma og fyrirhöfn við söluna sjálfa.

Á vefsíðunni er frítt að auglýsa rekstur, kennitölu eða aukaverkefni til sölu en kaupendur greiða árgjald fyrir aðgang að markaðstorginu.

„Það er nýjung hér á landi að rukka kaupendur en það er til að bregðast við gagnrýni seljanda um að oft á tíðum eru áhugasamir kaupendur einungis að sækja í mikilvæg rekstrargögn og því stendur til að byggja upp meira gæðaferli í kringum það hvaða kaupendur eru inn á síðunni,“ segir í tilkynningunni.

„Í dag er ferli að mestu í gegnum Facebook pósta þar sem netföng, DM‘s á Facebook og símtöl við söluna sjálfa gera ferlið ógagnsætt og tímafrekar en ella.“

Fyrir stærri rekstrareiningar er stefnt að því að tengja seljendur við sérfræðinga í verðmati, kaupsamningsgerð og fleiri þáttum sem tengjast söluferlinu.

„Samhliða þessu ætlar Pyngjan að byrja að segja frá spennandi tækifærum í hlaðvarpinu á hverjum föstudegi og halda áfram að hvetja unga sem aldna hlustendur að koma sér í side-gigg, brask eða stökkva á ný og spennandi verkefni. Með tíð og tíma mun Kennitalan.is vonandi festa sig í sessi sem traustur vettvangur sem auðveldar viðskipti og tengir kaupendur og seljendur á íslenskum fyrirtækjamarkaði.“