Frá og með 1. nóvember nk. mun Skyggnir eignar­halds­fé­lag taka til starfa og þar með flyst starf­semi Origo sem snýr að rekstrar­þjónustu, inn­viðum og hug­búnaði í að­skilið dóttur­fé­lag, Origo ehf.

Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá fé­laginu en þar segir að til­gangur Origo verði sá sami og hingað til, „að skapa betri tækni sem bætir lífið og hjálpa fyrir­tækjum og stofnunum að ná betri árangri með tækninni.“

For­stjóri Origo segir að breytingin muni skerpa á hlut­verki Origo og efla þjónustu gagn­vart við­skipta­vinum.

Vöru­merki Origo hefur síðan 2018 gegnt tveimur hlut­verkum: Annars vegar sem móður­fé­lag fjölda dóttur­fé­laga og sem rekstrar­fé­lag með fjöl­breytt fram­boð á sviði upp­lýsinga­tækni.

Til­gangurinn með skipu­lags­breytingunni er sagður vera til að skilja að starf­semi eignar­halds­fé­lags og rekstrar.

„Annars vegar er breytingin gerð til að skapa meiri fókus á vöru­þróun og af­hendingu lausna og þjónustu hjá Origo. Hins vegar, til að skil­greina betur hlut­verk eignar­halds­fé­lagsins gagn­vart rekstrar­fé­lögum sínum, sam­starfs­aðilum og fjár­festum,“ segir í tilkynningu Origo.

„Þessi breyting eru tíma­mót hjá Origo og öllum rekstrar­fé­lögum í eigu Skyggnis. Með nýju skipu­lagi náum við að skerpa betur á hlut­verki Origo og hafa rekstur og þjónustu þar í for­grunni. Við ein­setjum okkur að vera traustur sam­starfs­aðili fyrir­tækja og stofnana og að skapa fram­úr­skarandi tækni­lausnir sem hjálpa við­skipta­vinum okkar að ná árangri,“ segir Ari Daníels­son, for­stjóri Origo.

„Skyggnir fer með eignar­hluti í 14 rekstrar­fé­lögum á sviði upp­lýsinga­tækni og hefur það hlut­verk að koma auga á tæki­færi og styðja fyrir­tæki í eigna­safni sínu til árangurs. Sjálf­stæð rekstrar­fé­lög í eigu Skyggnis, þar sem Origo ehf. er stærst, ein­beita sér þannig að við­skipta­vinum sínum, vörum og rekstri,“ segir Ari að lokum.

Ítarlegt viðtal við Ara um breytingarnar má finna í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast blaðið og viðtalið í heild klukkan 19:30 í kvöld hér.