Fjárfestingafélagið Cantor Fitzgerald, undir forystu Brandon Lutnicks, í samstarfi við SoftBank, Tether og Bitfinex, undirbýr 3 milljarða dala fjárfestingafélag sem hyggst kaupa mikið magn af bitcoin. Markmiðið er að reyna að endurskapa árangur MicroStrategy, hugbúnaðarfyrirtækis sem breyttist í rafmyntarisa.
Fjárfestingarfélagið, sem kallast Cantor Equity Partners, var stofnað í janúar og aflaði sér 200 milljóna dala í byrjun árs.
Með því er ætlunin að stofna nýtt félag, 21 Capital, sem mun fá allt að 3 milljarða dala virði í bitcoin frá samstarfsaðilum sínum. Tether leggur til 1,5 milljarð dala í bitcoin, SoftBank leggur til 900 milljónir dala og Bitfinex leggur til 600 milljónir dala.
Þessi rafmyntaeign verður síðan nýtt til að byggja upp fjárfestingarsjóð sem verður skráður á markað, þar sem upprunalegir rafmyntaeigendur fá hlutabréf í staðinn.
Áætlað er að verðgildi bitcoin verði þá metið á 85.000 dollara per mynt við umskipti yfir í hlutabréf.
Fjárfestingafélagið 21 Capital er í raun rammi utan um stórfelld kaup á bitcoin með það að markmiði að breyta myntinni í hlutabréfafjárfestingu.
Upprunalegir eigendur myntarinnar, eins og Tether og Bitfinex, verða þannig hluthafar í nýju félagi sem byggir á virði rafmynta þeirra.
21 Capital sækir fyrirmynd sína í bandaríska fyrirtækið MicroStrategy, sem hefur vakið athygli eftir að það hóf kaup á gríðarlegu magni bitcoin fyrir fjármagn sem safnað var í gegnum hlutafjárútboð og skuldabréf.
Virði fyrirtækisins á hlutabréfamarkaði hefur farið upp í 91 milljarð dollara og það á nú tugmilljarða í bitcoin.
Brandon Lutnick, sem tók við sem stjórnarformaður Cantor Fitzgerald þegar faðir hans Howard Lutnick tók við embætti viðskiptaráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Trumps, stefnir á að leiða svipaða umbreytingu með nýju félagi sínu.
21 Capital mun einnig gefa út 350 milljóna dala breytanlegt skuldabréf og ráðast í aukalega 200 milljóna dala einkafjármögnun til að fjármagna frekari kaup á bitcoin. Hugsunin er að breyta hlutverki bitcoin úr fjárfestingu í virkt eignarhald innan skráðra fyrirtækja.
Rafmyntir á ný í náð ríkisstjórnar
Trump-stjórnin hefur lýst yfir vilja til að auðvelda viðskipti með rafmyntir, og Cantor hefur nú þegar hagnast á þeirri stefnu, m.a. með ráðgjöf við 775 milljóna dollara fjárfestingu Tether í hægrisinnuðu myndbandamiðlunarfyrirtækinu Rumble.
Uppgangur rafmynta hefur einnig stutt við framtakið. Verð á bitcoin fór upp í 106.000 dali eftir sigur Trumps í forsetakosningunum í nóvember en stendur nú í kringum 92.000 dali, nálægt sögulegu hámarki.