Stofnandi FoxConn, sem framleiðir stóran hluta af iPhone símum Apple, hefur tilkynnt um að hann muni bjóða sig fram sem sjálfstæður frambjóðandi í forsetakosningunum í Taívan sem fara fram í janúar næstkomandi.
Terry Gou, sem stofnaði FoxConn árið 1974, tjáði stuðningsmönnum og fjölmiðlum í morgun að með framboðinu vilji hann sameina stjórnarandstöðuna og tryggja að Taívan yrði ekki „næsta Úkraína“.
Gou fór jafnframt hörðum orðum um Lýðræðislega framfaraflokkinn og sakaði stjórnarflokkinn um spillingu og vanhæfni. Hann taldi stjórnarflokkinn hafa stuðlað að aukinni spennu í milliríkjadeilum við Kína.
Gou er fjórði einstaklingurinn sem býður sig fram. Skoðanakannanir í aðdraganda tilkynningarinnar gefa til kynna að hann sé talsvert minna fylgi en varaforsetinn William Lai sem er frambjóðandi Lýðræðislega framfaraflokksins samkvæmt umfjöllun Financial Times.
Hon Hai Precision Industry, betur þekkt sem Foxconn, er stærsti framleiðandi tæknivara í heimi og er hvað þekktast fyrir að framleiða stóran hluta af iPhone símum Apple. Um 200 þúsund manns starfa í aðalverksmiðju Foxconn í borginni Zhengzou.