Dýrasta hús Lundúna er 45 herbergja stórhýsið að 2-8a Rutland Gate við Hyde Park sem var selt af Sultan bin Abdulaziz, fyrrum krónprins Sádi-Arabíu fyrir 210 milljónir punda, eða sem nemur 34 milljörðum króna, í ársbyrjun 2020.
Cheung Chung-kiu, meirihlutaeigandi kínverska fasteignaþróunarfélagsins CC Land sem á m.a. „rifjárnsturninn“ í London, fór fyrir kaupunum 2-8a Rutland Gate. Hins vegar segja fimm heimildarmenn Financial Times að Hui Ka Yan, stofnandi og stjórnarformaður kínverska fasteignafélagsins Evergrande sé raunverulegi eigandi stórhýsisins.
Hui og Cheung hafa átt í fjölmörgum viðskiptum í gegnum árin og CC Land hefur m.a. selt fasteignaverkefni á meginlandi Kína til Evergrande. Þeir tilheyra hópi auðkýfinga í Hong Kong sem spila og skemmta sér saman.
Hui var um tíma ríkasti maður Kína eftir að hafa tekist að gera Evergrande að einu stærsta fasteignafélagi heims. Hann er þekktur fyrir eyðslusaman lífstíl og hefur sem dæmi keypti glæsihýsi víða um heim í gegnum skúffufyrirtæki. Auðæfi Hui voru metin á 45 milljarða dala þegar mest lét.
Evergrande komst í heimsfréttirnar fyrir rúmu ári þegar bág lausafjárstaða fasteignarisans olli lækkunum á helstu hlutabréfamörkuðum vegna ótta um að mögulegt gjaldþrot félagsins gæti haft víðtæk áhrif út fyrir fasteignageirann þar í landi.
Undanfarið ár hefur Hui verið að selja eignir sínar, þar á meðal einkaþotur. Heimildir FT herma að stórhýsið í London sé til sölu en væri þó ekki í formlegu söluferli. Talið er að tilvonandi kaupendur vilji verulegan afslátt af framangreinda 34 milljarða króna kaupverðinu.