Stofnandi og aðaleigandi kjúklingabitakeðjunnar Raising Cane‘s er orðinn einn af 400 ríkustu einstaklingum heims, samkvæmt úttekt og auðmannalista Bloomberg.

Auðæfi Todd Graves, sem opnaði fyrsta veitingastaðinn undir merkjum Raising Cane‘s árið 1996, eru metin á 7,6 milljarða dala eða yfir þúsund milljarða króna. Veitingastaðir keðjunnar eru í dag fleiri en 750 talsins.

Hinn 51 árs gamli Graves á tæplega 90% hlut í fyrirtækinu samkvæmt lýsingu vegna skuldabréfaútgáfu, sem Bloomberg hefur undir höndum. Reiknuð auðæfi hans eru metin út frá eignarhlut hans í Raising Cane‘s ásamt því sem hann hefur fengið greitt í arð.

Í umfjöllun Bloomberg segir að Raising Cane‘s hafi verið að vaxa hratt á markaði skyndibitastaða sem selja kjúklingamáltíðir, sem innihaldi stóra aðila á borð við McDonald‘s, Popeyes og KFC.

„Við einblínum eingöngu á kjúklingabitamáltíðir,“ er haft eftir AJ Kumaran, öðrum forstjóra Raising Cane‘s. „Þessi áhersla gerir okkur kleift að vera betri í þessu en nokkur annar.“

Tekjur Raising Cane‘s námu 3,3 milljörðum dala, eða sem nemur yfir 500 milljörðum króna, á tólf mánaða tímabilinu sem lauk í júní síðastliðnum. Skyndibitakeðjan stefnir á að ná 10 milljarða dala árlegri veltu fyrir lok þessa áratugar.

Aðlagaður hagnaður félagsins nam 647 milljónum dala eða um 91 milljarði króna á síðasta fjárhagsárinu. Félagið greiddi út 183 milljónir dala, eða yfir 25 milljarða króna, á síðustu þremur fjárhagsárum.