Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jón Björn Hákonarson, segir staðreynd að stofnanir samfélagsins verði að „girða sig í brók ef ekki á illa að fara“ í orkumálum. Þetta kemur fram í ávarpi Jóns Björns í ársskýrslu Landsvirkjunar.

Jón Björn, sem tók við stjórnarformennsku Landsvirkjunar síðasta vor eftir að hafa setið í stjórninni undanfarinn áratug, segir að það ríki samfélagsleg sátt um að það þurfi að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í orkumálum þjóðarinnar að undanförnu.

„Því miður hefur Landsvirkjun ekki fengið að sinna sínu hlutverki sem skyldi síðustu ár, þrátt fyrir að hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að setja aukinn kraft í orkuöflun fyrir þjóðina.“

Hann kallar eftir að stofnanir landsins standi fyrir samstilltu og kröftugu átaki til að eyða þeirri stöðnun í orkumálum „sem ógnar velferð íslensku þjóðarinnar og mun hamla orkuskiptum og frekari verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu“.

Á borðum Landsvirkjunar í dag séu virkjunarkostir sem unnið sé að því að koma til framkvæmda. Mikilvægt sé að á því verði ekki frekari dráttur vegna óljóss regluverks.

„Afleiðingin er fyrirsjáanleg“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tekur í sama streng í sínu ávarpi og segir að fyrirtækið hafi því miður ekki fengið að rækja hlutverk sitt sem skyldi, þrátt fyrir að það hafi margoft bent á nauðsyn þess að taka til hendinni í orkuöflun.

„Afleiðingin er fyrirsjáanleg; þegar skortur er á vöru eða þjónustu kemur þrýstingur á verðið. Ástandið sem nú ríkir í orkumálum þjóðarinnar er sjálfskapað, því þungt og flókið regluverk hefur tafið sjálfsagða nýtingu okkar hagkvæmustu virkjunarkosta,“ segir Hörður.

Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að leysa þennan hnút sem fyrst, því við megum engan tíma missa.“

Segir nauðsynlegt að Landsvirkjun verði aldrei seld til einkaaðila

Jón Björn - sem er oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Fjarðabyggðar og er forseti hennar – lýsir Landsvirkjun sem þjóðargersemi. Fyrirtækinu hafi tekist að byggja upp öflugt raforkukerfi.

Fjárhagslegur styrkur Landsvirkjunar sé meiri en nokkru sinni fyrr og félagið hafi aldrei verið jafn vel í stakk búið til að sinna ákalli atvinnulífs og samfélags um aukna orku, að sögn Jóns Björns.

„Arðgreiðslur síðustu ára hafa verið mikil búbót fyrir ríkissjóð og undirstrikað nauðsyn þess að Landsvirkjun verði aldrei seld til einkaaðila. Fyrirtækið er sameign þjóðarinnar, eins og auðlindirnar sem það nýtir, og verður vonandi svo um ókomna tíð, landi og þjóð til heilla.“