Franskt sprotafyrirtæki keypti í vor lykileignir líftækni- og hönnunarfyrirtækisins Vitrolabs, sem fatahönnuðurinn Ingvar Helgason stofnaði árið 2016, en hann síðarnefnda félagið hætti starfsemi nýlega.
Ingvar virðist vera í leit að nýju verkefni miðað við Linkedin-síðu hans. „Stealth mode: Activated“ segir á síðunni.
Vitrolabs var metið á yfir 11 milljarða króna í fjármögnunarumferð sem lauk árið 2022 þar sem félagið sótti um 46 milljónir dala, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma.
Stórleikarinn Leonardo DiCaprio tilkynnti í maí 2022 því að hann hefði fjárfest í Vitrolabs. Meðal annarra fjárfesta sem tóku þátt í fjármögnuninni eru franska hátískufélagið Kering, sem á m.a. Gucci, og danska fataverslunarkeðjan Bestseller.
Markmið Vitrolabs var að gera fataframleiðendum kleift að þróa fatnað úr leðri án þess að til þess þurfi að deyða dýr. Félagið hafði undanfarin ár unnið að tilraunum um hvernig rækta megi kúaleður á rannsóknastofu með stofnfrumutækni sem nýtast á fataiðnaðinum.
Njóti góðs af 10 ára rannsóknarvinnu Vitrolabs
Í umfjöllun WWD um viðskiptin kemur fram að Vitrolabs, sem er lýst sem brautryðjanda á sínu sviði, hafi ráðist í hópuppsögn á fyrri árshelmingi 2024 og félagið sé nú hætt starfsemi.
Franska sprotafyrirtækið Faircraft, sem var stofnað fyrir fjórum árum síðan, segir í tilkynningu sem send var út í maímánuði, að með yfirtökunni muni félagið njóta góðs af nærri 10 ára rannsóknar- og þróunarvinnu Vitrolabs. Helstu eignir Vitrolabs séu 30 einkaleyfi. Jafnframt taki franska félagið við samstarfsverkefnum Vitrolabs sem snúa að rannsóknarhluta starfseminnar.
Faircraft, sem lauk 15 milljóna evra fjármögnun eða sem nemur 2,1 milljarði króna, í nóvember síðastliðnum, stefnir á að opna fullbúna framleiðslustöð fyrir leður sem unnið er úr stofnfrumum dýra innan tveggja ára. Faircraft vonast til að verða fyrsta félagið til þess að koma upp fjöldaframleiðslu á leðrinu en slíkt hefur reynst krefjandi fyrir önnur fyrirtæki á þessu sviði.
Forstjóri franska félagsins, Haïkel Balti, segir að með kaupunum sé Faircraft nú leiðandi á sviði framleiðslu hágæða stofnfrumuleðurs.
Ingvar er bróðir Davíðs Helgasonar, stofnanda Unity, og Ara Helgasonar fjárfestis sem hafa sótt á annan tug milljarða króna í sjóðinn Vitrolabs Global I sem einblínir á grænar lausnir sem miða að því að snúa við áhrifum mannsins. Þá eru þeir hálfbræður Egils Helgasonar fjölmiðlamanns.