Hópur ungra frumkvöðla hefur búið til fjárfestingarforritið Dyngju, en um er að ræða smáforrit þar sem fólk getur spreytt sig á íslenska hlutabréfamarkaðnum í gegnum sýndarveruleika. Í smáforritinu geta notendur stundað sýndarviðskipti á íslenska hlutabréfamarkaðnum með gervigjaldmiðlinum vISK. Þannig gerir smáforritið landsmönnum kleift að læra inn á íslenska hlutabréfamarkaðinn, án þess að þurfa að leggja raunverulega fjármuni að veði, áður en ráðist er í raunverulegar hlutabréfafjárfestingar.
Umrætt snjallforrit byggir á hugmynd þriggja ungra manna, Alexanders Sigurðarsonar, Fannars Loga Hannessonar og Magnúsar Benediktssonar, sem á þeim tíma voru nemendur í Verzlunarskóla Íslands. Meðan þeir voru í Verzló stofnuðu þeir frumkvöðlafélag, sem einnig heitir Dyngja, utan um þessa hugmynd og var það meðal annars valið fyrirtæki ársins í frumkvöðlasamkeppninni JA Iceland árið 2020, sem haldin er á vegum Ungra frumkvöðla. Fyrir vikið kepptu þeir félagar fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni ungra frumkvöðla. Einnig hafa þeir tekið þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu, sem haldin er af Icelandic Startups.
Smáforritið smíðað sem lokaverkefni
Liðsmenn Dyngju hönnuðu smáforritið sjálfir, en þegar kom að því að búa forritið til var leitað til fjögurra tölvunarfræðinema við Háskólann í Reykjavík sem voru á höttunum eftir lokaverkefni í grunnnámi. Umræddir nemar eru þau Guðrún Helga Finnsdóttir, Reynir Freyr Hauksson, Arnar Kjartansson og Sigurður Már Steinþórsson. Lokaverkefni þeirra snerist því um að gera smáforritið að veruleika.
Reynir Freyr, sem gengið hefur til liðs við Dyngju til þess að halda áfram að forrita smáforritið og bakenda þess, segir að verkefnið hafi gengið mjög vel. Smáforritið sé nánast tilbúið og stefnt sé að því að setja það í loftið um miðjan næsta mánuð eða í síðasta lagi um miðjan ágúst. „Það má segja að Dyngja sé hugsuð sem stökkpallur inn á íslenska hlutabréfamarkaðinn. Fólk getur keypt hlutabréf í skráðu félagi fyrir gervipeninga sem kallast vISK (virtual íslenskar krónur)," útskýrir hann.
Allir sem skrái sig inn í forritið byrji með 500 þúsund vISK og geti fjárfest í þeim hlutabréfum sem þeim sýnist fyrir þá fjárhæð og fengið í staðinn gervihluti í félögum. „Gengi bréfa félaganna uppfærist svo í samræmi við þær gengisbreytingar sem eiga sér stað í íslensku kauphöllinni. Þetta er því í raun alveg eins og að eiga í raunverulegum hlutabréfaviðskiptum í kauphöllinni, nema að í Dyngju er verið að sýsla með gervipeninga og kaupa gervihluti. Það er því engin áhætta fólgin í viðskiptunum. Það eru margir sem hafa áhuga á að byrja að fjárfesta en þora ekki að láta verða af því vegna áhættunnar. Notendur geta svo fylgst með því sem vinir þeirra eru að gera, auk þess sem það verður hægt að nálgast fréttir af skráðu félögunum í gegnum smáforritið, svipað og hægt er að gera á Keldunni," bætir Reynir Freyr við. Dyngja styðst við markaðsgögn frá Kóða ehf. og bera þeir félagar Kóða bestu þakkir fyrir samstarfið.
Hann segir að fræðsluefni ýmiss konar verði að sama skapi aðgengilegt í smáforritinu. „Við ætlum að bjóða upp á víðtæka fræðslu, í formi myndbanda og glærusýninga, um hlutabréfamarkaðinn í Dyngju. Þegar fólk er búið að fara yfir ákveðna hluta efnisins getur það svo spreytt sig á spurningum úr efninu, til þess að láta reyna á kunnáttu sína."
Raunveruleg hlutabréfaviðskipti draumurinn
Reynir Freyr bendir á að gefinn hafi verið út fjöldi erlendra smáforrita sem hafi svipaðan tilgang og Dyngja, en í þeim sé þó ekki hægt að styðjast við íslenska hlutabréfamarkaðinn. Því hafi verið vöntun á lausn sem gerði landsmönnum kleift að læra inn á íslenska markaðinn.
Eitt þekktasta dæmið um erlent smáforrit sem einnig býður upp á sýndarhlutabréfaviðskipti er eToro. En í umræddu smáforriti er einnig hægt að eiga í raunverulegum hlutabréfafjárfestingum og segir Reynir Freyr að liðsmenn Dyngju geri sér einmitt vonir um að geta boðið upp á slíkan möguleika síðar meir. „Það hefur verið draumurinn frá degi eitt að bjóða einnig upp á möguleikann á raunverulegum hlutabréfaviðskiptum. Það er þó hægara sagt en gert, því það þarf að sjálfsögðu að fá leyfi eftirlitsaðila til að vera milliliður í slíkum viðskiptum og slíkt ferli kostar tíma og peninga."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .