Máttarstólpi ehf., móðurfélag Stólpa Gáma, hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Alkuli ehf., kæli- og frystitækjaþjónustu. Seljandi er Fjölnir Freyr Haraldsson, framkvæmdastjóri Alkuls.
Í fréttatilkynningu segir að við kaupin verði til nýtt þjónustusvið innan samstæðu Stólpa Gáma sem mun sinna viðhaldi og þjónustu á kæli- og frystibúnaði. Fjölnir Freyr mun stýra uppbyggingu umrædds þjónustusviðs sem starfsmaður Stólpa Gáma.
„Horft er til þess að efla þessa þjónustu bæði varðandi stóra notendur í matvælaiðnaði og einnig við frystigámaflota skipafélaganna.“
Styrkás, félag í meirihlutaeigu Skeljar fjárfestingarfélags, undirritaði á dögunum samkomulag um helstu skilmála kaupsamnings vegna kaupa á 100% hlutafjár í sex dótturfélögum Mattarstólpa – þar á meðal Stólpa Gáma og Alkuli – fyrir tæplega 3 milljarða króna.
„Það er mjög ánægjulegt að hafa náð þessum áfanga með kaupum á Alkuli ehf. Við þekkjum fyrirtækið af góðum viðskiptum á undaförnum árum og treystum Fjölni til að leiða uppbyggingu á framúrskarandi þjónustu á þessu sviði með sinni miklu þekkingu og reynslu. Ég vil einnig sérstaklega bjóða viðskiptavini Alkuls velkomna í hóp viðskiptavina Stólpa Gáma,“ segir Börkur Grímsson, framkvæmdastjóri Stólpa Gáma
„Það er mjög spennandi að vera hluti af öflugu fyrirtæki eins og Stólpa Gámum. Ég hlakka til að vinna með sterku teymi að því að þróa þjónustu okkar bæði fyrir núverandi og nýja viðskiptavini,“ segir Fjölnir Freyr Haraldsson.