Nær öll netumferð Íslands fer í gegnum þrjá fjarskiptasæstrengi til Evrópu og eru reknir af Farice ehf. sem er í ríkiseigu. Framkvæmdastjóri Farice, Þorvarður Sveinsson, segir fjölda sæstrengja félagsins snúa meira að því að tryggja fjarskiptaöryggi hér á landi heldur en núverandi þörfá gagnamagni.
Strengirnir þrír voru lagðir á síðustu tveimur áratugum. Sá elsti, FARICE-1 sem liggur til Skotlands, var tekinn í rekstur í janúar 2004. Næst elsti, DANICE sem liggur til Danmerkur, var tekinn í rekstur haustið 2009 og var fjarskiptaumferð til og frá landinu um árabil tryggð með þessum tveimur strengjum.
Þorvarður segir að reynslan af því að vera einungis með tvo strengi hafi verið ágæt, sérstaklega í ljósi þess að þeir slitnuðu aldrei. Til að tryggja fjarskiptaöryggi á tímum þar sem samfélagið reiðir sig í síauknum mæli á netið, ekki síst vegna skýjavæðingarinnar, var hins vegar talið nauðsynlegt að leggja þriðja strenginn.
„Við þær aðstæður var talið óásættanlegt fyrir okkur að búa við líkur á því að verða sambandslaus,“ segir Þorvarður.
Undirbúningur að nýjum sæstreng til Írlands hófst árið 2019. Strengurinn, sem fékk nafnið IRIS, var lagður sumarið 2022 og tekinn í almennan rekstur fyrir tveimur árum síðan, þann 1. mars 2023.
„Við höfum sett upp okkar þjónustuframboð til íslenskra fjarskiptafyrirtækja þannig að þau deili umferðinni nokkuð jafnt yfir þessa þrjá strengi. Þetta virkar í raun þannig að öll umferðin kemst vel fyrir á hverjum og einum þeirra. Þannig að ef að einn dettur út þá flæðir umferðin bara yfir á hina tvo og ef tveir detta út þá flæðir umferðin yfir á þann eina sem er eftir. Þannig tryggjum við öryggið.
Þetta felst ekki bara í því að vera með þrjá strengi heldur þarf að koma því þannig fyrir að umferðin raunverulega flæði á milli strengjanna þannig að einn þeirra geti tekið við umferðinni af hinum.“

Slær alltaf í borðið
Sem fyrr segir hefur aldrei komið upp slit á strengjunum þremur í sjó. Þorvarður telur að þetta sé sennilega einstök tölfræði á heimsvísu.
„Ég slæ alltaf í borð þegar ég segi þetta vegna þess að slit á sæstrengjum eru ekki óalgeng. Það eru um 600 sæstrengir í heiminum í dag og árlega eru um 200 slit. Einföld nálgun segir manni að hver strengur slitnar að meðaltali þriðja hvert ár,“ segir Þorvarður en bætir þó við að sumir strengir eru bilunargjarnari en aðrir.
Almennt sé það því hluti af lífi sæstrengs að geta þolað slit. Strengir Farice eru hannaðir til þess að eiga við náttúrulegar ógnir. Þá sé félagið með varahluti tilbúna og samninga við viðgerðarskip sem það getur kallað til ef eitthvað kemur upp á.
„Við höfum hagað lagningu okkar strengja þannig að það hefur aldrei reynt á þetta. Við höfum aldrei lent í slitum sem er svolítið einstakt í heiminum. Við erum mjög stolt af þessu.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Þorvarð í sérblaðinu Iðnþing 2025. Þar ræðir hann nánar um fjarskiptaöryggi Íslands, skemmdarverk á sæstrengjum í Eystrasaltinu og jákvæð áhrif gagnaversiðnaðarins á útlandasambönd.