Útflutningur Rússa á olíu til Evrópusambandsríkjanna hefur aukist mikið í apríl. Rússar hafa flutt út um 1,6 milljónir tunna á dag það sem af er mánuðinum en til samanburðar nam útflutningurinn um 1,3 milljónir tunna á dag um miðjan mars samkvæmt gagnaveitunni TankerTrackers. Árið 2020 keyptu Evrópusambandslöndin um 2 milljónir tunna á dag. Wall Street Journal greinir frá.
Erfitt er að fullyrða hvort kaup Evrópusambandsríkjanna séu minni í apríl en fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Fæstir vilja að viðskipti við Rússa séu opinber vegna innrásarinnar og alvarlegra og ítrekaðra ásakana um stríðsglæpi. Útflutningur til evrópskra hafna sem merktar eru sem „óþekktar“ hefur aukist til muna.
Í apríl jókst útflutningur til óþekktra hafna gríðarlega – 27 faldaðist, úr 24 þúsund tunnum í 665 þúsund tunnur. Það er því ekki víst að Evrópusambandið hafi dregið úr olíukaupum frá Rússum sem nokkru nemur.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að notkun stimpilsins „óþekkt staðsetning“ sé merki um að olía er flutt út á haf og þar færð um borð flutningaskipa. Rússneska hráolían fellur þar inn í hópinn með öðrum varningi og hylur þar með uppruna olíunnar. Nánar segir að þetta sé gömul aðferð sem hefur gert löndum sem sæta refsiaðgerðum, líkt og Íran og Venesúela, kleift að halda útflutningi gangandi.