Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga nam hátt í 1,3 milljörðum króna í fyrra og jókst verulega milli ára samhliða miklum samdrætti umsvifa. Þetta kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri sjóðsins fyrir síðasta ár.
Hreinar vaxtatekjur námu 1.251 milljón króna og jukust um yfir 80% milli ára með ríflega 70% vexti vaxtatekna upp á 17,9 milljarða en svo til sama hlutfallslega vexti vaxtagjalda sem alls hljóðuðu upp á 16,6 milljarða. Þetta er í uppgjörinu þakkað jákvæðum verðtryggingarjöfnuði upp á 47% eigin fjár að meðaltali yfir árið.
Þá jukust hreinar tekjur af fjáreignum tilgreindum á gangvirði verulega, úr 121 milljón í 272, og hreinar rekstrartekjur rétt tæplega tvöfölduðust því og námu rúmum 1,5 milljörðum króna. Almennur rekstrarkostnaður breyttist lítið og nam alls 270 milljónum eftir 7,6% aukningu, og hagnaðurinn því áðurnefndum 1.260 milljónum.
Mildað eiginfjárhlutfall 537%
Eignir sjóðsins námu 181 milljarði króna í lok síðasta árs og samanstóð að megninu til af 170 milljarða útlánum til sveitarfélaganna en útlán til lánastofnana námu einnig tæpum 3 milljörðum og margfölduðust milli ára. Eigið fé nam 21 milljarði og vogunarhlutfall svokallað því 11,5%.
Eiginfjárhlutfall hefur lækkað ár frá ári síðan 2017 þegar það nam 96,4%, þótt hægt hafi verulega á þeirri lækkun á síðustu árum, nam í lok síðasta árs 55,5%. Að teknu tilliti til þess að sjóðurin hefur sem tryggingu fyrir lánveitingum sínum til sveitarfélaga veð í tekjum þeirra nam svokallað mildað eiginfjárhlutfall hins vegar 537% um áramótin, samanborið við 630% árið áður.
Bent er á í uppgjörinu að bæði hagnaður og tekjur hafi verið þónokkru hærri en síðustu þrjú ár á undan.
Hrun í lánveitingum og útgáfu
Lánasjóðurinn gaf út og seldi skuldabréf fyrir 12,3 milljarða króna í fyrra, en sú tala hefur ekki verið lægri svo nokkru nemur síðan 2016 og markar tæplega 60% samdrátt milli ára. Árið 2021 nam útgáfan 29,4 milljörðum og um 32 milljörðum árið þar áður, og útgáfuáætlun þessa árs hljóðar upp á 28 milljarða króna en þar af hafa tæpir 5 milljarðar þegar verið gefnir út.
Athygli vekur að 58% allrar útgáfu í fyrra var í skuldabréfaflokknum LSS 39 sem hefur – eins og nafnið gefur til kynna – lokagjalddaga árið 2039, en hingað til hefur þorri útgáfunnar verið í LSS 34. Þá jókst útgáfa í græna flokknum LSS 40GB einnig verulega milli ára og nam 22% allrar útgáfu í fyrra samanborið við aðeins 4% árið áður.
Enn meiri samdráttur var á útlánahliðinni, hvar heildarsumman nam aðeins um 11 milljörðum króna í fyrra samanborið við rétt rúma 30 milljarða árið áður. Samdráttur var á lánum til flestallra svæða landsins, en útlán til Austurlands skera sig þar úr og stóðu hér um bil í stað.