Hagnaður Stjörnugríss, sem rekur kjötvinnslu og selur kjötvörur, nam 436 milljónum króna á síðasta ári sem er meira en 11-föld hækkun frá árinu á undan þegar hagnaðurinn nam 39 milljónum króna.

Heildarvelta Stjörnugríss nam 6,2 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um rúm 13% milli ára. Eignir félagsins voru tæplega 2,8 milljarðar króna í lok árs, eigið fé tæpir tveir milljarðar króna og skuldir 833 milljónir. Þannig var eiginfjárhlutfallið hjá Stjörnugrís um 70% í lok árs 2023.

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2024 verði greiddur arður að fjárhæð 145 milljónir króna vegna rekstrarársins 2023. Feðginin Geir Gunnar Geirsson og Hjördís Gissurardóttir eiga samtals um 80% hlut í Stjörnugrís, Geir á 50% hlut og Hjördís 30,44% hlut. Þá eiga þær Hallfríður Kristín og Friðrika Hjördís Geirsdætur hvor sinn 9,78% hlutinn.

Þá hagnaðist eggframleiðandinn Stjörnuegg, systurfélag Stjörnugríss, um hálfan milljarð króna á síðasta ári samanborið við 316 milljóna króna hagnað árið áður. Velta félagsins nam 1,9 milljörðum króna á síðasta ári og námu eignir þess 2,5 milljörðum.

Eigið fé Stjörnueggs var 2,2 milljarðar króna í lok árs og eiginfjárhlutfallið var rúmlega 90%. Í lok árs 2023 var Stjörnuegg í 79% eigu Hjördísar Gissurardóttur. Þá áttu þær Hallfríður og Friðrika hvor sinn 11% hlutinn.

Stjörnugrís er með bú að Vallá á Kjalarnesi, en rekur einnig svínabú í Saltvík á Kjalarnesi, Melum í Melasveit, Sléttabóli á Skeiðum og á Bjarnastöðum í Grímsnesi. Þá er Stjörnuegg með ungauppeldi í Sætúni og í Saltvík, og varphús í Brautarholti og að Vallá.