Nú á dögunum var haldinn aðalfundur Klíníkurinnar Ármúla og ársreikningur lagður fram til samþykktar. Tekjur félagsins jukust um þriðjung á milli ára og námu 2,6 milljörðum króna á síðasta ári.

Þá jókst hagnaðurinn um rúmlega 150 milljónir króna milli ára, fór úr 63 milljónum í 217 milljónir. Félagið skilaði einmitt fyrst hagnaði árið 2021, en þar áður hafði fyrirtækið skilað tapi samfleytt frá árinu 2014.

Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, segir bætta afkomu skýrast af betri nýtingu á skurðstofum og aðhaldi í kostnaði.

„Fyrirtækið var stofnað árið 2014 sem sprotafyrirtæki og mætti mikilli mótstöðu frá hinu opinbera. Það er ansi hár fastur kostnaður í starfsemi okkar og ég held að það sem hafi breyst á síðustu tveimur árum sé að við náum betri nýtingu. Við bættum við fleiri sjúkdómaflokkum og fórum dýpra í það sem við vorum að gera. Við vorum með 93% nýtingu á skurðstofum í fyrra og það verður jafnvel hærri nýting í ár. Það eru engir galdrar á bak við bætta afkomu, þetta gengur út á að ná nýtingunni sem mest upp og vera með aðhald í kostnaði.“

Hann bendir á að verð á liðskipta- og offituaðgerðum hjá Klíníkinni hafi verið óbreytt frá árinu 2017.

„Óbreytt verð í um sex ár hefur vissulega leitt til þess að framlegðin hefur dregist saman hjá okkur. Við höfum þó náð að mæta því með hagkvæmari rekstri.“

Fjallað er nánar um Klíníkina Ármúla í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gærmorgun.