Fjölmörg sveitarfélög hafa lýst yfir miklum áhyggjum af frumvarpi innviðaráðuneytisins um breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er lagt til að þau sveitarfélög sem ekki nýti útsvarsheimildir sínar að fullu verði refsað með lækkun framlaga úr Jöfnunarsjóði.

En að mati margra sveitarfélaga gengur það gegn sjálfstjórnarrétti þeirra og eðlilegri fjármálastjórnun.

Reykjavíkurborg, sem er með útsvarið í botni, hefur þó fagnað frumvarpinu enda fengi borgin meira úr sjóðnum ásamt því að íbúar í öðrum sveitarfélögum þyrftu að borga höfuðstaðarálag sem rennur m.a. til borgarinnar.

Bæjarráð Garðabæjar ræddi fyrirhugaðar breytingar á fundi sínum 25. febrúar en í bókun bæjarráðs kemur fram fyrirhugaðar breytingar munu hafa veruleg fjárhagsleg áhrif á Garðabæ.

Verði frumvarpið að lögum minnka greiðslur til Garðabæjar um 218 milljónir.

Við það leggst skerðing sem ráðgerð er í drögum að frumvarpinu vegna útsvarshlutfalls, en í tilviki Garðabæjar getur sú skerðing numið um 385 milljónum króna.

Samtals er því gert ráð fyrir að framlög til Garðabæjar skerðist um ríflega 600 milljónir, u.þ.b. 30 þúsund krónur á hvern íbúa.

Á árinu 2024 var hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarsstofni Garðabæjar um 3.145 milljónir en á sama tíma greiddi sjóðurinn framlög til Garðabæjar að fjárhæð um 2.760 milljónir.

Garðbæingar greiddu því í sjóðinn um 385 milljónum umfram það sem sjóðurinn greiddi sem framlög til Garðabæjar, eða sem nemur um 19 þúsund krónum á hvern íbúa bæjarins.

Gangi áform um frumvarpið eftir verður því staðan sú að Garðbæingar munu leggja til sjóðsins nettó um 50 þúsund krónur á hvern íbúa í bænum.

Samsvarar það um 163% hækkun á umfram framlagi hvers Garðbæings.

„Ekkert sveitarfélag er í þessari stöðu í dag og augljóst má vera að sveitarfélagið yrði fyrir stórkostlegri „ofjöfnun“ við fyrirhugaðar breytingar,“ segir í umsögn Garðabæjar við frumvarpið.

Bæjarráð Garðabæjar segir einnig að frumvarpið vegi harðlega að sjálfstjórnarétti sveitarfélaga sem er stjórnarskrárvarinn.

„[Frumvarpið] felur í sér þvingun gagnvart þeim til að leggja á hámarksútsvar sem fær ekki staðist með vísan til þess að það er á valdi hverrar sveitarstjórnar að ákvarða álagningarhlutfall útsvars innan ákveðinna marka og verður að telja að slík þvingunaraðgerð geti ekki samrýmst markmiðum og hlutverki Jöfnunarsjóðsins að koma að útgjaldaþörf sveitarfélaga m.a. vegna verkefna sem sveitarfélög hafa tekið við af ríkinu eins og rekstur grunnskólans.“

Gildishlaðið orðalag

Þá gerir Garðbær athugasemd við óviðeigandi orðalag um „vannýtt“ útsvar sem finna má í grein 3.5 í athugasemdum í greinargerð frumvarpsins.

„Orðalagið er ansi gildishlaðið og á sér að auki enga stoð í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst hvati, sem að mati Garðabæjar er mjög varhugaverður og hindrar það að sveitarfélögin í krafti sjálfsákvörðunarréttar síns um útsvarsprósentu, sem tryggður er í lögum, geti skilað ávinningi af ábyrgum rekstri til bæjarbúa. Enn fremur er það verulega gagnrýnivert að í greinargerð með frumvarpinu er að engu leyti reynt að leggja mat á áhrif umræddrar breytingar á sveitarfélögin í landinu.“

Garðbæingar bjarga borginni

Í frumvarpsdrögum er lagt til að við bætist svokallað höfuðstaðaálag, sem félli þá til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Vert er að benda á að umfjöllun um þessa viðbót er rýr í frumvarpsdrögum.

Þar er þó nefnt að styðja þurfi við umrædd sveitarfélög vegna þess að tiltekin þjónusta sé borin meira upp af þeim en öðrum. Nefnt er að slík þjónusta sé til að mynda flókin og margþætt félagsleg þjónusta og þjónusta við heimilislausa.

„Garðabær gerir athugasemdir við að engin greining liggi fyrir um ofangreinda þætti eða aðra sem áhrif hafa á höfuðstaði umfram önnur sveitarfélög á landinu. Það er t.a.m. fremur augljóst að Reykjavíkurborg hefur gríðarlegar tekjur í gegnum fasteignagjöld af stjórnsýslubyggingum sem önnur sveitarfélög hafa ekki. Verður að gera þá kröfu til ráðuneytisins og eftir atvikum Alþingis á síðari stigum að fyllri greining á stöðunni liggi fyrir,“ segir í umsögn Garðabæjar

Bæjarráð Garðabæjar gagnrýnir einnig að ekkert fjárhagslegt mat sé lagt á það í frumvarpsdrögunum hvaða áhrif breytingin hefur á Jöfnunarsjóð og á Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ.