Disney hefur staðfest að rannsókn sé hafin á stórum leka innan fyrirtækisins eftir árás frá tölvuþrjótahópi sem kallar sig Nullbulge. Hópurinn heldur því fram að hann sé að vernda réttindi listamanna.

Skilaboðin eru sögð innihalda væntanleg verkefni sem fyrirtækið vinni nú að en óljóst er hversu viðkvæm skilaboðin eru.

Á vefsíðu Nullbulge segir að hópurinn ráðist gegn öllum sem hann telur skaða listamenn með því að nota efni sem búið er til með gervigreind. Í samtali við BBC segir hópurinn að hann sé með aðsetur í Rússlandi og að hann hafi komist inn á skilaboðakerfi Disney sem ber heitið Slack.

„Disney var skotmarkið okkar vegna þess hvernig það meðhöndlar listamannasamninga ásamt notkun gervigreindar og tillitsleysi við neytendur,“ segja tölvuþrjótarnir.

Það er óvenjulegt að tölvuþrjótar viðurkenni að þeir séu rússneskir og að þeir séu að ráðast á fyrirtæki af siðferðislegum ástæðum þar sem flestir tölvuþrjótar frá Rússlandi stunda netárásir með það að markmiði að kúga fórnarlömb sín og græða pening.