Fyrir­tæki í S&P 500-vísitölunni í Bandaríkjunum hyggjast verja allt að 500 milljörðum dala í að kaupa eigin hluta­bréf, í stærstu endur­kaupaáætlun frá upp­hafi samkvæmt Financial Times.

Viðbrögð við óvissu í efna­hags­um­hverfi, sterkar af­komutölur og lægra hluta­bréfa­verð hafa gert þessi við­skipti afar aðlaðandi.

Á undan­förnum vikum hafa bandarísk stór­fyrir­tæki á borð við App­le, Alp­habet (móðurfélag Goog­le), Wells Far­go og Visa til­kynnt um­fangs­miklar endur­kaupaáætlanir á eigin bréfum, sam­tals að and­virði 518 milljarða dala.

Þetta jafn­gildir mestu þriggja mánaða heildar­upp­hæð sem Deutsche Bank hefur skráð frá því mælingar hófurst árið 1995.

Óvissa dregur úr fjár­festingum

Endur­kaup á eigin bréfum (e. share buybacks) eru að­gerð þar sem fyrir­tæki kaupir eigin hluta­bréf til baka af markaði. Þessi bréf eru ýmist felld niður eða geymd í eigin bréfa­safni. Með færri hlutum í um­ferð hækkar hlut­falls­legur hagnaður á hvern hlut, sem gerir fyrir­tækið aðlaðandi í augum fjár­festa.

Endur­kaupin senda einnig skýr skila­boð um traust stjórn­enda á framtíðar­horfum rekstrarins.

Að­gerðin getur verið sér­stak­lega hagstæð þegar markaðsverð hluta­bréfa telst undir raun­virði, líkt og nú, eftir ný­lega lækkun markaða vegna við­skipta­stríðs og óvissu í hag­kerfinu.

Í ljósi óvissunnar kjósa mörg fyrir­tæki frekar að verja lausafé í að kaupa eigin bréf sér­stak­lega þar sem hluta­bréfa­verð hefur verið undir fyrra há­marki.

„Endur­kaupin endur­spegla þá stöðu að tolla­um­hverfið hamlar fjár­festingum í rekstri,“ segir fyrr­verandi yfir­maður ­markaðs­deildar stórs bandarísks fjár­festingar­banka við FT.

Þegar hluta­bréfa­verð lækkar geta stjórn­endur nýtt svigrúm sitt til að fram­kvæma endur­kaup og bæta lykil­tölur, án þess að horfast í augu við gagn­rýni um rýran fjár­festingar­vilja.

Af­koma betri en búist var við

Á fyrsta árs­fjórðungi ársins hafa fyrir­tæki í S&P 500 skilað 7,8% hærri hagnaði á hvern hlut en greiningaraðilar höfðu spáð, sam­kvæmt JP­Morgan.

Þetta hefur ýtt undir traust stjórn­enda á undir­liggjandi rekstri og stuðlað að auknum endur­kaupum.

„Met­kaupin undir­strika að fyrir­tækin telja sig ekki þurfa að grípa til varnar – þau eru áfram vaxandi og hagnaður stendur traustum fótum,“ sagði Parag Thatte, greiningar­sér­fræðingur hjá Deutsche Bank.

App­le hefur til­kynnt að það hyggist verja 100 milljörðum dollara í endur­kaup. Alp­habet, móðurfélag Goog­le, hefur sett 70 milljarða í slíka áætlun.

Wells Far­go og Visa hafa einnig til­kynnt um kaup upp á 40 og 30 milljarða dollara. Fyrir­tæki í orku-, hráefna- og veitu­sviði S&P 500 hafa hins vegar að mestu haldið sig til hlés.

Hluti þessara kaupa er þó fjár­magnaður með lántöku. App­le og tryggingafélagið AIG sóttu nýverið fjár­magn á skulda­bréfa­markaði, sem reynist áfram hagstæður þrátt fyrir efna­hags­óvissu.

„Fjár­festar eru reiðu­búnir að lána þessum fyrir­tækjum, jafn­vel í miðju tolla­stríði,“ segir markaðssér­fræðingurinn Brian Reynolds. „Og upp­hæðirnar eru gríðar­legar.“

Þrátt fyrir ávinninginn hafa endur­kaup verið gagn­rýnd fyrir að draga úr fjár­festingu í nýsköpun, þróun og mann­auði.

Fræði­menn og stjórn­mála­menn hafa bent á að fyrir­tæki gætu nýtt fjár­magnið á annan hátt sem hefði meiri langtímaáhrif fyrir hag­kerfið og sam­félagið.