Fyrirtæki í S&P 500-vísitölunni í Bandaríkjunum hyggjast verja allt að 500 milljörðum dala í að kaupa eigin hlutabréf, í stærstu endurkaupaáætlun frá upphafi samkvæmt Financial Times.
Viðbrögð við óvissu í efnahagsumhverfi, sterkar afkomutölur og lægra hlutabréfaverð hafa gert þessi viðskipti afar aðlaðandi.
Á undanförnum vikum hafa bandarísk stórfyrirtæki á borð við Apple, Alphabet (móðurfélag Google), Wells Fargo og Visa tilkynnt umfangsmiklar endurkaupaáætlanir á eigin bréfum, samtals að andvirði 518 milljarða dala.
Þetta jafngildir mestu þriggja mánaða heildarupphæð sem Deutsche Bank hefur skráð frá því mælingar hófurst árið 1995.
Óvissa dregur úr fjárfestingum
Endurkaup á eigin bréfum (e. share buybacks) eru aðgerð þar sem fyrirtæki kaupir eigin hlutabréf til baka af markaði. Þessi bréf eru ýmist felld niður eða geymd í eigin bréfasafni. Með færri hlutum í umferð hækkar hlutfallslegur hagnaður á hvern hlut, sem gerir fyrirtækið aðlaðandi í augum fjárfesta.
Endurkaupin senda einnig skýr skilaboð um traust stjórnenda á framtíðarhorfum rekstrarins.
Aðgerðin getur verið sérstaklega hagstæð þegar markaðsverð hlutabréfa telst undir raunvirði, líkt og nú, eftir nýlega lækkun markaða vegna viðskiptastríðs og óvissu í hagkerfinu.
Í ljósi óvissunnar kjósa mörg fyrirtæki frekar að verja lausafé í að kaupa eigin bréf sérstaklega þar sem hlutabréfaverð hefur verið undir fyrra hámarki.
„Endurkaupin endurspegla þá stöðu að tollaumhverfið hamlar fjárfestingum í rekstri,“ segir fyrrverandi yfirmaður markaðsdeildar stórs bandarísks fjárfestingarbanka við FT.
Þegar hlutabréfaverð lækkar geta stjórnendur nýtt svigrúm sitt til að framkvæma endurkaup og bæta lykiltölur, án þess að horfast í augu við gagnrýni um rýran fjárfestingarvilja.
Afkoma betri en búist var við
Á fyrsta ársfjórðungi ársins hafa fyrirtæki í S&P 500 skilað 7,8% hærri hagnaði á hvern hlut en greiningaraðilar höfðu spáð, samkvæmt JPMorgan.
Þetta hefur ýtt undir traust stjórnenda á undirliggjandi rekstri og stuðlað að auknum endurkaupum.
„Metkaupin undirstrika að fyrirtækin telja sig ekki þurfa að grípa til varnar – þau eru áfram vaxandi og hagnaður stendur traustum fótum,“ sagði Parag Thatte, greiningarsérfræðingur hjá Deutsche Bank.
Apple hefur tilkynnt að það hyggist verja 100 milljörðum dollara í endurkaup. Alphabet, móðurfélag Google, hefur sett 70 milljarða í slíka áætlun.
Wells Fargo og Visa hafa einnig tilkynnt um kaup upp á 40 og 30 milljarða dollara. Fyrirtæki í orku-, hráefna- og veitusviði S&P 500 hafa hins vegar að mestu haldið sig til hlés.
Hluti þessara kaupa er þó fjármagnaður með lántöku. Apple og tryggingafélagið AIG sóttu nýverið fjármagn á skuldabréfamarkaði, sem reynist áfram hagstæður þrátt fyrir efnahagsóvissu.
„Fjárfestar eru reiðubúnir að lána þessum fyrirtækjum, jafnvel í miðju tollastríði,“ segir markaðssérfræðingurinn Brian Reynolds. „Og upphæðirnar eru gríðarlegar.“
Þrátt fyrir ávinninginn hafa endurkaup verið gagnrýnd fyrir að draga úr fjárfestingu í nýsköpun, þróun og mannauði.
Fræðimenn og stjórnmálamenn hafa bent á að fyrirtæki gætu nýtt fjármagnið á annan hátt sem hefði meiri langtímaáhrif fyrir hagkerfið og samfélagið.