Bandaríski verðbréfa­miðlarinn Charles Schwab skilaði öflugu upp­gjöri fyrir annan árs­fjórðung, þar sem hagnaður jókst um 60% og heildar­tekjur náðu nýjum hæðum.

Árangurinn byggðist einkum á mikilli þátt­töku ein­stak­linga í við­skiptum í kjölfar sveiflu­kennds markaðs­um­hverfis, sem mótaðist af viðbrögðum fjár­festa við tolla­stefnu Donald Trumps Bandaríkja­for­seta.

Í til­kynningu sem birt var á föstu­dag kom fram að hreinn hagnaður Schwab nam 2,13 milljörðum Bandaríkja­dala á öðrum árs­fjórðungi 2025, saman­borið við 1,33 milljarða á sama tíma í fyrra.

Það jafn­gildir 1,08 dollara í hagnað á hlut, eða 1,14 dollurum að frá­dregnum ein­skiptisliðum, sam­kvæmt The Wall Street Jorunal.

Báðar tölur fóru fram úr væntingum markaðsaðila, sam­kvæmt Fact­Set.

Hagnaðinn má rekja til aukinnar virkni smærri fjár­festa, sem fjöl­menntu á markaði þegar hluta­bréfa­verð lækkaði skarpt í apríl í kjölfar tolla­að­gerða og við­skipta­deilna.

Al­mennir fjár­festar nýttu tækifærið til að kaupa í lægðinni, sem leiddi til sögu­lega mikils fjölda dag­legra við­skipta.

Tekjur af verðbréfa­miðlun námu 952 milljónum dala á fjórðungnum, sem er 23% aukning milli ára.

Á sama tíma jukust vaxta­tekjur félagsins um 31% og námu 2,8 milljörðum dala, þökk sé víðari vaxta­mun og betri nýtingu eigin fjár.

Heildar­tekjur félagsins námu 5,85 milljörðum dala – hæstu í sögu félagsins – og fóru um­fram væntingar markaðarins, sem stóðu í 5,7 milljörðum.

Þrátt fyrir kröftugan tekju­vöxt lækkuðu ­inn­lán Schwab um 8% frá fyrra ári, úr 252 milljörðum dala í 233 milljarða.

Grein­endur telja að þetta endur­spegli breytta hegðun við­skipta­vina í há­vaxta­um­hverfi, þar sem fjár­munir eru fluttir úr inn­lánum yfir í ávöxtunar­leiðir með hærri vöxtum.

For­stjóri félagsins, Rick Wur­ster, sagði í yfir­lýsingu að Schwab hefði „skilað vexti á öllum vígstöðvum“ á fjórðungnum.

Hann benti á að bæði kjarnaþjónusta félagsins og banka­hluti rekstursins hafi staðið styrkum fótum þrátt fyrir óstöðugt ytra um­hverfi.

Hluta­bréf Charles Schwab hafa hækkað um meira en 25% frá áramótum og nálgast nú sögu­leg met. Gengi bréfanna endur­speglar ekki aðeins sterkt upp­gjör heldur einnig trú fjár­festa á að Schwab, sem þjónustar bæði fjár­festa og inn­láns­eig­endur, hagnist áfram á aukinni þátt­töku al­mennings á fjár­málamörkuðum.

Samkvæmt WSJ undir­strikar uppgjörið hvernig flökt, áhyggjur og pólitísk um­ræða á borð við tolla­stefnu og við­skipta­stríð geta skapað tækifæri fyrir miðlara eins og Schwab.

Óstöðug­leiki á mörkuðum, sem jafnan veldur varkárni meðal stærri sjóða og langtíma­fjár­festa, ýtir undir virkni meðal þeirra sem bregðast skjótt við – og þar af leiðandi auknar við­skipta­tekjur miðlara.

Þrátt fyrir að markaðurinn hafi þegar jafnað sig frá apríl­rótinu bendir árangur Schwab til þess að félagið kunni að vera í kjör­stöðu til að hagnast á áfram­haldandi sveiflum, ekki síst ef óvissan í alþjóða­við­skiptum heldur áfram að móta hegðun fjár­festa.