Stormtré ehf., félag í meirihlutaeigu Hreggviðar Jónssonar, hagnaðist um rúmlega 2,3 milljarða króna á síðasta ári. Um er að ræða 109% hagnaðaraukningu á milli ára, en árið 2020 hagnaðist félagið um rúma 1,1 milljarða.

Eigið fé Stormtré nam í árslok tæpum 12 milljörðum króna, en Hreggviður á 87,45% hlut og bróðir hans Jóhann Arngrímur Jónsson 12,55% hlut.

Eignir félagsins námu 12,9 milljörðum króna í árslok 2021. Þar af nam 90% eignarhlutur Stormtrés í Guðrúnarborg, móðurfélagi Veritas samstæðunnar, 6,5 milljörðum króna.

Tekjur Stormtrés í gegnum Veritas námu tæpum 1,5 milljörðum króna á síðasta ári, að því er kemur fram í ársreikningi. Þá skilaði Veritas samstæðan, sem inniheldur fyrirtækin Vistor, Distica, Artasan, Medor og Stoð, 1.565 milljóna króna hagnaði í fyrra sem er 64,5% aukning frá árinu 2020.

Velta Veritas samstæðunnar hefur vaxið talsvert á síðustu árum, „sem kemur til af meiri vörusölu og hækkandi verði vegna veikingar íslensku krónunnar,“ af því er kom fram í skýrslu stjórnar. Þá námu eignir samstæðunnar 11 milljörðum króna í árslok 2021.

1,2 milljarða hlutur í lúxusíbúðum

Eignarhlutir Stormtrés í öðrum félögum námu 5,4 milljörðum króna í lok árs. Þar af átti Stormtré tæplega 1,4 milljarða hlut í Festi, 1,1 milljarða hlut í Arion banka, 855 milljóna hlut í Controlant og 509 milljóna hlut í fjárfestingarfélaginu Mandólín, félag sem heldur utan um eignarhlut íslenskra fjárfesta í Mariott Edition hótelinu við hlið Hörpu.

Þá átti Stormtré 1,2 milljarða hlut í fjárfestingarfélaginu Apartnor ehf. Félagið var stofnað utan um hlut í fasteignauppbyggingu við Austurhöfn í Reykjavík og er í eigu Hreggviðar og Eggerts Dagbjartssonar fjárfestis.

Samkvæmt nýjasta ársreikningi Apartnor fyrir árið 2020 höfðu verið lagðir 2,2 milljarðar af hlutafé í félagið og því auk þess veitt 542 milljóna króna lán, en Apartnor fór með 79,8% hlut í Austurhöfn samkvæmt ársreikningi.