Allt bendir til þess að Kristilegir demókratar (CDU) vinni stórsigur í þingkosningunum í Þýskalandi, en samkvæmt útgönguspám fær flokkurinn 29% atkvæða.

Kosið var í dag um 630 sæti á þýska þinginu, Bundestag, en kjördeildum var lokað klukkan fimm á íslenskum tíma í dag.

Olaf Scholz, kanslari og leiðtogi Sósíaldemókrata, boðaði til kosninga í desember í kjölfar þess að samsteypustjórn Sósíaldemókrata, Græningja og Frjálslyndra sprakk í nóvember í fyrra.

Þjóðernisflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) tvöfaldar fylgið frá síðustu þingkosningum og fær 19,5% atkvæða samkvæmt spánni. Það er í takt við kannanir fyrir kosningar sem sýndu flokkinn með í kringum 20% fylgi.

Sósíaldemókratar (SPD) tapa miklu, fara úr 25,7% fylgi í kosningunum 2021 niður í 16%. Fylgi Græningja lækkar um 1,2 prósentustig frá síðustu þingkosningum og fær flokkurinn 13,5%. Vinstri flokkurinn Die Linke bætir verulega við sig og fær 8,5%.

Þá fá Frjálslyndir demókratar (FDP) 4,9% og eru nálægt því að komast inn á þing.

Útilokar að mynda stjórn með AfD

Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata, verður því að öllum líkindum næsti kanslari Þýskalands. Hann hefur lýst yfir vilja til að mynda stjórn með Sósíaldemókrötum og Græningjum, en þó sagst helst vilja mynda tveggja flokka stjórn.

Líkt og aðrir flokkar hefur Merz útilokað alfarið að mynda ríkisstjórn með AfD.

Þrátt fyrir það treystu Kristilegir demókratar á stuðning AfD í þinginu á dögunum til að ná í gegn þingsályktunartillögu um útlendingamál. Þá hefur Merz kynnt harðari stefnu síns flokks í útlendingamálum og opnað á að fá stuðning frá AfD við að ná frumvörpum um útlendingamál í gegnum þingið.