Rétt áður en Donald Trump tilkynnti að fimm rafmyntir yrðu hluti af gjaldeyrisforða Bandaríkjanna gerði óþekktur fjárfestir stór áhættusöm viðskipti sem skiluðu umtalsverðum hagnaði.
Samkvæmt Forbes veðjaði fjárfestirinn á að Bitcoin (BTC) og Ethereum (ETH) myndu hækka í verði en viðskiptin voru framkvæmd með fimmtíufaldri gírun nokkrum klukkutímum áður en Trump greindi frá gjaldeyrisforðanum.
Gírun (e. leverage) í viðskiptum felur í sér að fjárfestir notar lánsfé til að auka stærð stöðu sinnar umfram eigið fjármagn.
Með fimmtíufaldri gírun getur fjárfestir stjórnað stöðu sem er fimmtíu sinnum stærri en eigið framlag hans. Þetta þýðir að bæði hagnaður og tap margfaldast, sem gerir slíkar fjárfestingar mjög áhættusamar.
Þegar fréttirnar urðu opinberar rauk markaðurinn upp og fjárfestirinn lokaði stöðum sínum með 6,8 milljóna Bandaríkjadala hagnaði eða rúmlega 945 milljóna króna hagnaði á gengi dagsins.
Í aðdraganda tilkynningar Trump voru engin augljós merki um skyndilegar hækkanir á rafmyntamarkaði.
Rafmyntafjárfestar tóku því eftir því þegar nafnlaus einstaklingur setti milljónir dala inn á Hyperliquid, dreifstýrðan rafmyntaskiptamarkað, og notaði þá fjármuni til að opna mjög stórar gíraðar langtímastöður í BTC og ETH.
Þessar stöður voru teknar nokkrum klukkustundum áður en Trump birti yfirlýsingu sína.
Hársbreidd frá stórtapi
Að morgni sunnudagsins virtist sem fjárfestirinn væri í hættu á að stöður hans myndu tapast vegna verðlækkunar Etherum, en um klukkan 09:37 að staðartíma fór rafmyntin hættulega nálægt þeim mörkum sem hefði valdið sjálfvirkri lokun stöðunnar með gríðarlegu tapi.
Ef Ethereum hefði lækkað um aðeins 54 dali í viðbót hefði fjárfestirinn tapað rúmlega 2 milljónum dala.
Með fimmtíufaldri gírun hefði um 2% lækkun til viðbótar valdið því að fjárfestirinn hefði tapað öllum sínum fjármunum.
Hins vegar kom yfirlýsing Trump klukkan 10:24 að staðartíma sem sendi markaðinn upp á við. Strax í kjölfarið lokaði fjárfestirinn stöðum sínum með stórfelldum hagnaði.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá hækkaði Bitcoin um 9% á einum sólarhring eftir tilkynninguna á meðan Ethereum hækkaði um meira en 11%. Verð á Bitcoin fór upp í 95 þúsund dali á meðan Ethereum fór yfir 2.500 dali.

Fjárfestirinn lokaði stöðum sínum eftir fyrstu hækkunina en hefði hagnast enn meira ef hann hefði haldið stöðunni lengur, þar sem Bitcoin og Ethereum héldu áfram að hækka eftir að Trump staðfesti í seinni færslu að þessar tvær myntir yrðu hluti af gjaldeyrisforðanum.
Trump tók einnig sérstaklega fram að hann elskaði Ethereum og Bitcoin.
Innherjaviðskipti eða heppni?
Samkvæmt Forbes hefur tímasetning viðskiptanna vakið athygli vestanhafs og telja sumir að um möguleg innherjaviðskipti sé að ræða.
Viðskiptin voru einstaklega vel tímasett en þau undirstrika þó einnig hættuna sem fylgir hárri gírun, sér í lagi á rafmyntamarkaði.
Að ráðast í gríðarlega áhættusöm viðskipti með fimmtíufaldri gírun nokkrum klukkustundum fyrir gengishækkun sem skilar milljóna dollara hagnaði er annaðhvort ótrúleg heppni eða eitthvað annað.
Fjárfestingar í rafmyntum eru nú þegar gagnrýndar fyrir skort á eftirliti og tilfelli sem þessi gefa frekari tilefni til umhugsunar.
Ef einhver hefði aðgang að innherjaupplýsingum um áform Trump-stjórnarinnar gæti það verið brot á fjármálareglugerðum og vakið athygli eftirlitsaðila.
Forbes tekur þó fram að engar sannanir séu fyrir hendi um að um innherjaviðskipti hafi verið að ræða að svo stöddu en engu að síður veki viðskiptin eðlilegar spurningar um sanngirni og gagnsæi á rafmyntamarkaðinum.