Georges Elhedery, bankastjóri HSBC, hefur tilkynnt að bankinn muni skipta sér landfræðilega í austur og vestur á heimsvísu. HSBC hefur verið að reyna að draga úr kostnaði og vill forðast vaxandi pólitískar deilur.

Breytingarnar munu taka gildi á næsta ári en bankinn mun einnig einfalda reksturinn með því að skipta sér upp í fjórar lykileiningar.

Bankinn mun þá koma til með að stofna sérstakar rekstrareiningar í Bretlandi og Hong Kong. Austurmarkaðurinn svokallaði mun sjá um Asíu-Kyrrahafssvæðið og Miðausturlöndin og hinn vestræni mun sjá um Bretland, Ameríku og evrópska meginlandið.

HSBC tilkynnti einnig í dag að það hefði ráðið fyrsta kvenkyns fjármálastjóra í 159 ára sögu bankans. Pam Kaur, sem hefur starfað hjá bankanum síðan 2013, tekur við stöðunni og mun um leið taka sæti í stjórn bankans.